Verkefni E.C.A. Program samþykkt í ríkisstjórn
Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, hefur komið talsvert að verkefni E.C.A. Program hér á Íslandi og sagðist í samtali við Víkurfréttir nú í kvöld binda miklar vonir við þetta risastóra verkefni og að það verði að veruleika.
Fyrirhuguð viðhaldsstöð E.C.A. Program Iceland ehf. á Keflavíkurflugvelli og staðsetning á allt að 20 þotum hér á landi til þjálfunar og kennlsu flugmanna og öll sú atvinna sem fylgir þessu verkefni sé kærkomin fyrir Suðurnes og að sögn Björgvins myndarleg erlend fjárfesting hér á landi.
Öll leyfi til flugrekstrar liggi fyrir þó ennþá sé verið að ganga frá lausum endum. Verkefnið sé ekki hernaðarleg starfsemi og segir Björgvin að leiðrétta þurfi þann misskilning sem hafi gætt í fréttum af verkefninu í dag. Málið hafi komið inn á borð núverandi ríkisstjórnar á síðasta ári, þar sem það hafi verið samþykkt. Verkefnið sé mikið og gott atvinnumál fyrir Suðurnes sem Björgvin segist styðja heilshugar.