Verkefnastjóri verði ráðinn í Voga til að fara yfir annmarka
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga leggur til við bæjarstjórn að ráðinn verði verkefnastjóri til að fara vandlega yfir þá annmarka sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telur að hafi verið á málsmeðferð Sveitarfélagsins Voga og fram koma í úrskurði í máli vegna Suðurnesjalínu 2.
Skipulagsnefnd fundaði á dögunum um kæru Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2 en fyrir fundinum lá niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli Landsnets hf. vegna synjunar sveitarfélagsins á umsókn fyrirtækisins um lagningu Suðurnesjalínu 2. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga vísaði málinu til meðferðar skipulagsnefndar á fundi sínum 6. október 2021.
Afgreiðsla skipulagsnefndar var eftirfarandi: „Í úrskurði í máli nr. 53/2021 frá 4. október felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi þá ákvörðun Sveitarfélagsins Voga að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2. Í úrskurðinum kemur fram að nefndin telur ágalla vera á umsögn Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Sveitarfélagið Vogar óskar eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til meintra ágalla sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telur vera á mati stofnunarinnar og fram kemur í fyrrnefndum úrskurði.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að ráðinn verði verkefnastjóri til að fara vandlega yfir þá annmarka sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telur að hafi verið á málsmeðferð Sveitarfélagsins Voga og fram koma í úrskurði í máli 53/2021.“