Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 18. október 2001 kl. 17:27

Verður stærri en Svartsengi!

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra hleypti í gær nýrri háhitaholu Jarðlindar ehf. í Trölladyngju, en hún er 2.307 metra djúp. Krafturinn sem kom úr iðrum jarðar var mikill þegar ráðherrann opnaði holuna. Áætlað er að hægt verði að framleiða 15 megawött af rafmagni með gufunni og reisa um það bil 70 MW virkjun þegar borun annarrar holu á svæðinu lýkur.
Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja og stjórnarformanns Jarðlindar ehf. sem er hlutafélag í eigu HS og fleiri aðila, gera menn sér vonir um að jarðhitasvæðið á Trölladyngju muni geta afkastað að minnsta kosti jafn miklu ef ekki mun meiru en orkuverið í Svartsengi. Þá sé vatnið þar hreinna en í Svartsengi þar sem útfellingar og tæring er ekki eins mikil. Auk þess er selta vatnsins í Trölladyngju minni en í Svartsengi.

Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri hitaveitunnar, telur að borholan muni skila 270-280 gráðu hita, sem þykir mjög gott. Afköst holunnar sem boruð var til að rannsaka svæðið, verða mæld á næstu dögum og vikum. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir verða teknar ákvarðanir um næstu skref. Albert sagði á hlutahafafundi HS fyrir skömmu að með því að bora aðra holu ætti að vera hægt að reisa þarna 70 MW virkjun. Áður en af því verður, þarf að kortleggja svæðið og sú vinna stendur nú yfir. Þegar því er lokið verður valinn staður fyrir nýja borholu.

Trölladyngja er austan við Keili. Heildarkostnaður við framkvæmdir þ.e. borun holunnar, gerð slóða og borplans, ferskvatnsöflun og ýmsar rannsóknir á svæðinu nemur nú um 240 milljónum króna. Hitaveita Suðurnesja á tæp 70% hlutafjár í Jarðlind ehf. Nágrannasveitarfélögin, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogur og Bessastaðahreppur eiga hvert tæp 7% og Jarðboranir eiga 5%.
„Við erum mjög bjartsýnir á framtíð þessa svæðis“, sagði Júlíus Jónsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024