Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Verður ríkið ekki að koma að uppbyggingu á Ásbrú?
Frá Ásbrúardegi Kadeco.
Mánudagur 24. apríl 2017 kl. 13:40

Verður ríkið ekki að koma að uppbyggingu á Ásbrú?

- spyr Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri

„Ég geri mér grein fyrir að helstu verkefni sveitarfélaga eru að útvega börnum pláss í leik- og grunnskóla. En þegar vöxturinn verður svona skyndilegur, fjárhagsstaða sveitarfélags tímabundið veik og möguleikar til frekari skuldsetningar engir, finnst manni sjálfsagt að ríksivaldið komi að málum,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í Facebook pistli.

Hann segir að Suðurnesin séu eitt helsta vaxtarsvæði Íslands þessi misserin og að fólk streymi til svæðisins, innanlands sem utan, í hundraða og jafnvel þúsunda vís, vegna eftirspurnar eftir vinnuafli. Líka vegna þess að á svæðinu hafi verið mikið af lausu og hagstæðu húsnæði, sem nú sé reyndar uppurið.

„Ríkisfyrirtækið KADECO (Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar) hefur selt allar fasteignir fyrrum herstöðvar Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem ríkið fékk í fangið þegar Varnarliðið fór frá Íslandi árið 2006, fyrir marga milljarða króna. Langstærsti hluti íbúðarhúsnæðis á vellinum, sem nú heitir Ásbrú, er kominn í eigu tveggja stórra fasteignafélaga. Stóran hluta þessara eigna var áður búið að standsetja fyrir íslensk, borgaraleg not; breyta rafmagni úr 110V í 220V og lagfæra á ýmsan máta og koma í notkun en nokkur hundruð íbúðir af ýmsum stærðum á eftir að uppfæra, standsetja og koma í notkun. Nú keppast fasteignafélögin við viðgerðir og uppfærslu þessa ónotaða húsnæðis og gera ráð fyrir að setja á markaðinn nokkur hundruð íbúðir á næstu mánuðum, sem er hið besta mál, EN.......
Þar sem Ásbrú tilheyrir Reykjanesbæ þýðir þetta að ef áætlanir leigufélaganna ganga eftir mun íbúum á svæðinu, og þar með í Reykjanesbæ, fjölga gríðarlega á næstu mánuðum. Til dæmis má gera ráð fyrir að börnum á leik- og grunnskólaaldri á Ásbrúarsvæðinu fjölgi um nokkur hundruð strax á þessu ári. Það þýðir auðvitað að Reykjanesbær þarf að geta boðið nægan fjölda leikskólaplássa og tekið við nýjum grunnskólanemendum strax í haust. Núna, 4 mánuðum áður en skólar hefjast á ný í haust liggja samt litlar sem engar staðfestar tölur fyrir eða upplýsingar um samsetningu íbúa eða aldursskiptingu.

Því má gera ráð fyrir að mikil og skyndileg útgjöld falli á sveitarfélagið þegar rokið verður af stað að bregðast við stöðunni en ríkið hefur ekki viljað ljá máls á því að koma að þessari uppbyggingu með því t.d. að skilja eitthvað eftir af þeim milljörðum sem fengust fyrir sölu eignanna. Þvert á móti hefur fjármálaráðherra hafnað öllum slíkum hugmyndum. Á sama tíma hefur fjármálaráðuneytið fengið milljarða í ríkiskassann fyrir fasteignir sem það hefur selt og veit að nýir eigendur munu, eðlilega, keppast við að koma þeim í not sem allra fyrst.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan tengir þingmenn kjördæmisins við pistilinn og spyr síðan í lokin: „Verður ríkið ekki að koma að uppbyggingu innviða á vaxtarsvæðum í svona tilfellum eða er hægt að yppa bara öxlum, segja nei og ætlast til að sveitarfélögin ein leysi úr þessari fordæmalausu stöðu?“

Þingmennirnir frá Suðurnesjum, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Friðriksson hafa tjáð sig en kvarta yfir litlum árangri, þrátt fyrir að hafa verið í meirihlutastjórn á Alþingi.
„Ég tek undir með þér Kjartan. Ég spurði fjármálaráðherra nýlega um stefnu hans í þessu máli; og svarið var skýrt: Það kemur ekki til greina að fjármunir af sölu eigna renni að einhverju leyti til Reykjanesbæjar vegna uppbyggingar,“ segir Silja Dögg.

„Takk fyrir að beina þessari umræðu til til mín. Tek undir orð þín Kjartan og því miður hefur ekkert gerst í þessu máli. Við Silja Dögg studdum saman ríkisstjórn þar sem Suðurkjördæmi hafði tvo ráðherra og þessi mál komu ítrekað upp án þess að við náðum árangri,“ segir Ásmundur.