Verður Hitaveita Suðurnesja gerð að hlutafélagi?-„Jákvætt fyrir sveitarfélögin“, segir Júlíus Jónsson forstjóri H.S.
Umræður um að gera Hitaveitu Suðurnesja að hlutafélagi eru komnar vel á veg. Síðastliðinn mánudag var sveitastjórnarmönnum kynnt staða málsins en sveitarfélögin hafa tekið misjafnlega vel í að gera H.S. að hlutafélagi.Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra H.S. ganga umræður um framtíð orkumála á Íslandi út frá þeirri forsendu að allar raf- og hitaveitur verði gerðar að hlutafélögum.Hitaveitan hefur um nokkurra mánaða skeið átt í samningaviðræðum við Rafveitu Hafnarfjarðar varðandi samstarf, hugsanlega á þeim grunni að Rafveita Hafnarfjarðar sameinist H.S. og Hafnarfjarðarbær eignaðist hlut ríkisins í fyrirtækinu. Ef sameining fyrirtækjanna á að verða að veruleika, er nánast óhjákvæmilegt að breyta H.S. í hlutafélag.Að sögn Júlíusar hafa sex fundir verið haldnir með nefnd sem kosin var til að skoða nánar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi H.S.„Áþreifanlegur árangur er enn tiltölulega lítill þrátt fyrir mjög gagnlegar skýrslur nefndarinnar. Helsti þröskuldurinn í málinu hefur verið hugsanleg skattskylda ef fyrirtækið væri hlutafélag. Einnig hafa mál eins og umræða um hlutafélagsform og samkeppni blandast saman“, segir Júlíus.Samkvæmt heimildum VF hefur þetta hlutafélagsmál staðið í fulltrúum minni sveitarfélaga en það virðist vera stuðningur við málið í Reykjanesbæ, Garði og í Grindavík. Reykjanbær á stærstan hlut í fyrirtækinu, eða 52%.„Fyrir sveitarfélögin væri þetta mjög jákvætt því þó að þau seldu ekki sinn eignarhlut þá færðist hann sem eign í bókhald þeirra og myndi hafa jákvæð áhrif á t.d. vaxtakjör sem þeim byðust“, segir Júlíus.Sumir óttast að með því að gera H.S. að hlutafélagi þá gætu peningamenn keypt orkufyrirtækin og hækkað gjaldskrá þeirra upp úr öllu valdi. Júlíus segir að reynslan hafi sýnt annað og tekur Bretland sem dæmi. „Reynslan er sú að þegar hið opinbera hættir að annast orkumálin, þá fer það að loks að sinna eftirlitshlutverki sínu og þannig eykst réttur viðskiptavinanna.“