Verður Garðvangur 20 rýma hjúkrunarheimili?
Garðvangur verður 20 rýma hjúkrunarheimili samkvæmt fyrirliggjandi drögum að samkomulagi milli sveitarfélaganna Garðs, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Voga um uppbyggingu hjúkrunarheimila á starfssvæði Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum. Drögin voru kynnt í bæjarráði Sveitarfélagsins Garðs fyrir helgi. Í dag eru 38 íbúar á Garðvangi, 5 tvíbýli eru þar og 28 einbýli.
Í drögum að samkomulaginu koma m.a. fram eftirfarandi áherslur í náinni framtíð:
Unnið verði að því að fjölga hjúkrunarrýmum á starfssvæði DS þannig að aldraðir sem þurfa á hjúkrunarheimili að halda fái notið þeirrar þjónustu sem þeir þarfnast.
Sveitarfélögin standi sameiginlega að erindi til Velferðarráðuneytisins um 20 hjúkrunarrými til viðbótar þeim 60 sem heimiluð hafa verið á Nesvöllum, enda þjóni Nesvellir íbúum svæðisins alls.
Garðvangur verði rekinn áfram sem 20 rýma hjúkrunarheimili. Staðið verði sameiginlega að umsókn um fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra til endurbóta á Garðvangi. Hlévangur verði seldur og söluandvirðið lagt í endurbætur á Garðvangi.
Samkvæmt svæðisskipulagi Suðurnesja verði horft til þess að í samræmi við stækkandi samfélög verði í framtíðinni hjúkrunarrými í öllum bæjarfélögunum.
Bæjarstjórar sveitarfélaganna sem standa að DS komi að samningum við væntanlega rekstraraðila hjúkrunarheimilanna að Garðvangi og Nesvöllum.
Bæjarráð samþykkir samhljóða efni samkomulagsins og leggur jafnframt áherslu á að samkomulagið verði lagt fyrir bæjarstjórnir sveitarfélaganna til staðfestingar.
Samþykkt var samhljóða á fundi bæjarráðs Garðs að fela bæjarstjóra umboð til að fylgja málinu eftir og ganga frá samkomulaginu, sem verði síðan lagt fram til staðfestingar í bæjarstjórn.