Verður farþegum flogið frá Keflavík til Reykjavíkur?
Icelandair skoðar nú alvarlega þann möguleika að fljúga með farþega sem lentu frá Bandaríkjunum í morgun með 757 þotum félagsins frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur, en Reykjanesbraut var enn lokuð í morgun. Starfsfólk og áhafnir félagsins yrði einnig ferjað til Keflavíkurflugvallar þannig. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair sagði þetta á Bítinu á Bylgjunni á níunda tímanum í morgun.
Fjórar vélar Icelandair lentu í morgun á Keflavíkurflugvelli frá New York, Denver, Portland og Seattle. Alls um fimm hundruð manns. Fjögurundruð þeirra eru ekki á leið í framhaldsflug. Reykjanesbraut er lokuð og ekki miklar líkur á því að hún verði opnuð fyrir hádegi - því eru þessir farþegar „fastir“ í flugstöðinni. Þar eru fyrir um tvöhundruð manns sem kusu að dvelja þar frekar en að fara með rútum á hótel til Reykjavíkur í gær.
Flestum flugferðum dagsins hefur verið aflýst eða frestað. Veður er enn mjög vont og flestir vegir lokaðir. Vonast er til að ástandið lagist seinni partinn eða í kvöld.