Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 9. september 2008 kl. 10:39

Verðmerkingum ábótavant í Reykjanesbæ

Neytendastofa hefur gert könnun á ástandi verðmerkinga í Reykjanesbæ. Skoðaðar voru matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og sérvöruverslanir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Farið var í sjö matvöruverslanir í Reykjanesbæ og Leifsstöð. Valdar voru 25 vörur af handahófi í hverri verslun, kannað hvort þær væru verðmerktar og hvort verðmerking á hillu væri í samræmi við verð í kassa. Alls voru skoðaðar 175 vörur og voru verðmerkingar í ólagi í 10,86% tilvika. 4% af vörunum voru óverðmerktar, 4,57% með hærra verði í kassa og 2,29% með lægra verði í kassa. Engin af verslunum sjö voru með allar verðmerkingar í fullkomnu lagi.

Farið var í þrjú bakarí í Reykjanesbæ og reyndust verðmerkingar þar ekki góðar. Kannaðar voru merkingar í kæli annars vegar og borði hins vegar. Gera þarf bætur á verðmerkingum í borði í öllum bakaríunum. Einungis Kornið var með verðmerkingar í kæli í góðu lagi.

Ein fiskbúð er á svæðinu og var verðmerkingum þar ábótavant.

Verðmerkingar voru kannaðar í 25 sérvöruverslanir bæði inni í verslunum og í sýningargluggum. Ástand verðmerkinga í gluggum verslana var í flestum tilfellum í góðu lagi, þó voru dæmi þess að allt væri óverðmerkt.


Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til að gera athugasemdir við vegna ástand verðmerkinga verður sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.

Neytendastofa hyggst halda verðmerkingareftirliti sínu áfram og kanna verðmerkingar í öðrum kaupstöðum.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is.