Verðmætir markaðir í hættu
- segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður um sjómannadeiluna
„Staðan er grafalvarleg, en hátt í 2000 mann í hópi fiskvinnslufólks á landinu öllu er án vinnu og komið á atvinnuleysisskrá. Afleidd störf þjónustuaðila og smærri fiskverkefndur eru í miklum þrengingum og talið að sumir þeirra fari ekki aftur í gang,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður í Suðurkjördæmi við VF.
Ásmundur segir mikið áhyggjuefni verðmætir markaðir. „Það sem er þó alvarlegast fyrir utan þjóðhagslegt tap á verkfallinu er sú staðreynd að verðmætir ferskfiskmarkaðir sem byggðir hafa verið upp á Íslendingum eru í alvarlegri kreppu og hætta að við missum forystuhlutverk okkar þar ef deilan dregst enn á langinn með ófyrirséðum afleiðingum.
Nú verða sjómenn, útgerðarmenn og stjórnvöld að leggja á samningaborðið þau spil sem leysa deiluna á allra næstu dögum. Í mínum huga kemur lagasetning ekki til greina þar sem viðsemjendur eru það langt komnir með samninga að inngrip með lagasetningu setti málið í raun aftur á byrjunarreit. Krafan er að samningsaðilar ljúki samningum og setjist síðan yfir sín mál og endurskoði kjarasamning og skiptakerfið á næstu 2-3 árum en þar er örugglega margt sem betur má fara fyrir báða aðila.“