Verðmæti fasteigna tvöfaldað á einu ári og grunnur lagður að 300 nýjum störfum
Árangur af starfi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar hefur verið mun meiri og arðbærari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þegar félagið var stofnað 24. október 2006. Félagið gerði þjónustusamning við ríkið 9. desember 2006, þar sem kveðið er á um markmið, umboð og heimildir Þróunarfélagsins. Félagið hefur starfað eftir þessum þjónustusamningi í eitt ár og náð eftirtektarverðum árangri í að breyta fyrrum varnarstöð í lifandi þjónustu- og vísindasamfélag, sem er eitt helsta markmið Þróunarfélagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þróunarfélaginu.
Í fréttatilkynningunni segur ennfremur: Tilgangurinn með stofnun Þróunarfélagsins var meðal annars að koma fasteignum í eigu ríkisins á Keflavíkurflugvelli sem fyrst í arðbær borgaraleg not með það að markmiði að jákvæð samfélagsleg áhrif verði sem mest og að neikvæðum áhrifum á nærsamfélagið verði haldið í lágmarki. Heildarverðmæti fasteigna á Keflavíkurflugvelli var metið á 11 milljarða króna. Nú stefnir í að fasteignir verði seldar fyrir tvöfalt hærri upphæð, búið er að gæða svæðið lífi og leggja grunninn að 300 nýjum störfum.
Þótt sala fasteigna og uppbygging á svæðinu hafi gengið vel síðustu 12 mánuðina er um flókið og óvenjulegt verk er að ræða. Nauðsynlegt var að sala eigna tæki mið af uppbyggingarmarkmiðum stjórnvalda á svæðinu. Félaginu var því ætlað að selja fasteignir sem á hvíla kvaðir, meðal annars sú að ekki megi selja eignirnar á almennum markaði. Þetta var einnig gert til þess að koma í veg fyrir gríðarlegt verðfall fasteigna í grennd við Keflavíkurflugvöll. Samanburður á fermetraverði á Keflavíkurflugvelli og nágrannabyggðarlögunum er því óraunhæfur.
Eitt af markmiðunum með sölu eignanna var að hafa sem mest jákvæð áhrif á samfélagið og sem minnst neikvæð. Með það að leiðarljósi var kallað eftir áhugasömum aðilum með hugmyndir um nýtingu eigna á svæðinu, og var það meðal annars gert með áberandi auglýsingum með vísun í upplýsandi vef félagsins, þar sem allar óseldar eignir ríkisins á svæðinu eru kynntar og söluskilmálar tíundaðir.
Við sölu fasteigna á Keflavíkurflugvelli og aðra starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar hefur í einu og öllu farið eftir lögum og þess gætt að sem arðsömust nýting og hæst verð fáist fyrir fasteignir sem koma til með að hýsa fjölbreytta starfsemi sem er til hagsældar fyrir svæðið og samfélagið allt, segir í fréttatilkynningu frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar.