Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Verðlaunuð fyrir að bjóða starfsfólki fjölbreytt starfstengt nám
Miðvikudagur 27. apríl 2022 kl. 15:00

Verðlaunuð fyrir að bjóða starfsfólki fjölbreytt starfstengt nám

Samkaup fá menntaverðlaun atvinnulífsins 2022.

Samkaup hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2022, en verðlaunin voru afhent á Menntadegi atvinnulífsins í Hörpu 25. apríl. Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa, og Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, tóku í sameiningu við verðlaununum. Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt árlega því fyrirtæki sem þykir skara fram úr í fræðslu- og menntamálum en þetta er í níunda sinn sem verðlaunin eru veitt.

Í þakkarræðu sinni sagði Gunnar Egill, forstjóri Samkaupa, fyrirtækið hafa markað sér þá sýn árið 2019 að ná samkeppnisforskoti á grundvelli mannauðs og fyrirtækjamenningar. Samkaup vilji verða besta verslunarfyrirtækið til að vinna hjá. Mörg verkefni hafi verið sett af stað til að ná þessu markmiði, þar á meðal var sett fram heildstæð áætlun í menntamálum. Farið var í samstarf við Verslunarskóla Íslands um stafræna viðskiptalínu og fagnám á sviði verslunar og þjónustu. Þá býðst starfsfólki fyrirtækisins nú að gangast undir raunfærnimat til að fá reynslu sína metna til leiðtoganáms á háskólastigi, sem Samkaup hafa þróað í samvinnu við Háskólann á Bifröst. Fyrsti hópurinn mun útskrifast úr leiðtoganáminu í maí næstkomandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 Gunnar Egill segir að með aukinni sjálfvirknivæðingu í verslun hafi þörf fyrir þjálfun og menntun starfsfólks aukist. Með því að gefa starfsfólki Samkaupa tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu opnist á tækifæri fyrir það til frekari starfsþróunar. Gunnar sagðist ennfremur taka við verðlaununum fyrir hönd alls verslunarfólks á Íslandi og að Samkaup hyggist halda áfram að auka veg og virðingu verslunarstarfa á Íslandi.

Gunnur Líf segir að viðurkenningin sé mikil hvatning en Samkaup trúi því að aukin hæfni og þekking skili sér í sterkari liðsheild og betri árangri fyrir fyrirtækið. Með því að bjóða starfsfólki upp á fjölbreyttar námsleiðir sé markmiðið að breyta afgreiðslustörfum í sérfræðistörf til framtíðar sem komi á móti fækkun starfa vegna sjálfvirknivæðingar.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Ljóst er að Samkaup leggur mikinn metnað í vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri uppbyggingu starfsfólks þar sem lögð er áhersla á tækifæri þess til að eflast og þroskast bæði persónulega og í starfi. Mjög jákvætt er að sjá þá áherslu sem lögð er á fjölbreyttar menntaleiðir innan fyrirtækisins sem ná til breiðs hóps starfsfólks sem einnig miðlar þekkingunni á milli vinnustöðva innan fyrirtækisins.“

 Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið og hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 1.400 manns í um 640 stöðugildum.