Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Verðlaunahross á nauðungaruppboði farið til Danmerkur
Sunnudagur 8. febrúar 2009 kl. 12:57

Verðlaunahross á nauðungaruppboði farið til Danmerkur

 
Verðlaunahrossið Glotti frá Sveinatungu, sem Sýslumaðurinn í Keflavík ætlar að bjóða upp á nauðunngaruppboði þann 12. febrúar nk., er farið til Danmerkur. Glotti frá Sveinatungu yfirgaf Ísland þann 20. desember sl. og áfangastaður hans er Hoygards-Hestar, færeyskur hestabúgarður nálægt Hirtshals í Danmörku.
 
Sérfræðingur í hestum sem Víkurfréttir ræddu við sagði Glotta frá Sveinatungu vera gríðarlega verðmætan hest en um 20-30 milljónir króna fást fyrir hesta í sama gæðaflokki og Glotta.
 
Ætla má að Glotti frá Sveinatungu hafi verið seldur til Danmerkur með þeim veðböndum sem á honum voru og því hafi láðs að kanna veðbönd á dýrinu áður en það fór utan. Sérfræðingur okkar sagði reyndar frekar óvanalegt að veðsetja hross.
 
Glotti frá Sveinatungu var í fréttum á vef landssambands hestamannafélaga í byrjun desember í fyrra. Þar segir eigandi Glotta að það hafi margir sýnt honum áhuga, en ekkert tilboð hafi þó heillað hann ennþá.
 
„Mér hefur líka sýnst að það ríki dálítill misskilningur hjá kaupendum í útlöndum. Gengismunurinn villir mönnum sýn. Menn halda að þeir geti gert meiri reifarakaup í hrossum en efni standa til. Þegar á svo að setjast niður og ræða endanlegt verð þá hrökkva menn til baka,“ sagði eigandi Glotta frá Sveinatungu, einn helsti hestamógúll landsins, í samtali við vef landssambands hestamannafélaga.

Þá er spurt: En hefur Glott fengið slíka notkun að það sé stætt á því fyrir þig að halda honum hér heima ef þú færð gott tilboð?
„Hann fékk góða notkun í sumar, fimmtíu hryssur, og fyljunin yfir 90%. Hrossaræktarsamtök hafa sýnt áhuga á honum fyrir næsta sumar. Enda væri illa komið fyrir hrossaræktinni ef menn telja ekki ástæðu til að nota svona hest. Glotti er frábær gæðingur, sjálfgerður og sjálfberandi frá náttúrunnar hendi. Þetta er mesti snillingur sem ég hef kynnst um dagana,“ segir eigandinn.

Þá segir að Glotti verði í vetur hjá þeim aðila sem hefur tamið og sýnt hestinn frá upphafi. „Það er fjórðungsmót á Kaldámelum næsta sumar sem árreiðanlega verður gaman að taka þátt í. Og svo er náttúrulega heimsmeistaramótið í Sviss. Maður veit aldrei fyrirfram hvaða stefna verður tekin. Það fer eftir því hvernig vindar blása,“ segir eigandi Glotta á þeim tíma.
 
Glotti frá Sveinatungu er sem sagt núna kominn til Danmerkur og því ekki á leiðinni á nauðungaruppboð hjá Sýslumanninum í Keflavík þann 12. þessa mánaðar.


 
---
Ljósmyndin er fengin af vef Hoygards-Hestar. Hin myndin er af nauðungaruppboðsauglýsingu í Víkurfréttum sl. fimmtudag. Rétt er að taka fram að hesturinn heitir Glotti frá Sveinatungu, en ekki Sveinstungu eins og segir í auglýsingunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024