Verðlaunahafi kallaður til skólastjóra
Verðlaunahafi fyrstu viku í Facebook hlutanum á borgarleik Icelandair er Sigríður Guðbrandsdóttir í Reykjanesbæ.
Sigríði tókst að safna flestum á Facebook sem smelltu á „Like“ við söguna um uppáhaldsborgina hennar, New York.
Sigríður er nemandi í 10. bekk í Holtaskóla í Reykjanesbæ og Icelandair brá á leik með skólastjóranum hennar í Holtaskóla, Jóhanni Geirdal.
Rétt eftir hádegi á föstudegi var Sigríður boðuð fyrirvaralaust úr skólastofunni inn á skrifstofu til skólastjórans.
„Ég hef aldrei verið kölluð til skólastjórans og ég mætti þangað með dúndrandi hjartslátt. Jóhann skólastjóri var mjög alvarlegur í fyrstu, en svo fór hann að skellihlægja og sagði mér að ég hefði unnið ferðavinning hjá Icelandair. Ég skildi hann ekki einu strax því ég var svo stressuð. Fyrst áttaði ég mig á því að ég hefði ekki gert neitt af mér og svo skildi ég loksins að ég hefði unnið í borgarleiknum hjá Icelandair.“
Á efri myndinni er Sigríður með hrekkjóttum skólastjóranum, Jóhanni Geirdal eftir að hann færði henni gleðitíðindin. Ekki laust að hún sé enn að átta sig á hlutunum.