Verðlaunaður fyrir spennandi lokaverkefni
Ungur Keflvíkingur, Önundur Jónasson, vakti mikla athygli á dögunum fyrir lokaverkefni sitt við Verkfræðiháskólann í Árósum, en hann hannaði í félagi við annan nemanda sérstakan hring, Mítralhringinn, sem er ætlað að auðvelda líf þeirra sem eiga við að stríða vandamál sem tengjast hjartalokum.
Önundur og félagi hans Jesper Lønne, ákváðu í samráði við kennara sinn að einbeita sér að þessu sem lokaverkefni til B.S. prófs í véltæknifræði og útkoman er hringur þessi sem er komið fyrir í kringum hjartalokur til að styrkja vöðvavef. Þeim tókst afar vel til og fengu hæstu einkunn fyrir og einnig peningaverðlaun að upphæð 25.000 frá fyrirtækinu Dansk Ingenør Service.
Önundur sagði í samtali við Víkurfréttir að oft skapist vandamál í hjartalokum þegar fólk fær blóðtappa og þeir hafi ákveðið að þróa aðferð sem þekkst hefur frá árinu 2000, þ.e. að koma fyrir hring í kringum hjartalokurnar til að koma í veg fyrir að þær færist í sundur.
„Hingað til hefur verið notast við málmefni sem hefur skamman líftíma svo við ákváðum, að kynna okkur rannsóknir sem hafa verið gerðar og hvað það er við núverandi tækni sem ekki er að virka. Svo unnum við út frá þeim og gerðum prufur með hringi úr plasti sem eiga að endast mun lengur. Við bárum svo útkomuna undir prófessorana og hjartalækna á Skejby sjúkrahúsinu í Árósum. Leiðbeinandinn okkar hafði alltaf trú á okkur og verkefninu en þegar læknarnir sögðu að þeim litist vel á og gáfu okkur góðar ábendingar fengum við staðfest að þetta væri eitthvað sem þeir höfðu líka trú á.“
Nú taka við rannsóknir á hringjunum, sem munu að sögn Önundar taka um 1-2 ár áður en ljóst verður hvort þeir verði notaðir í framtíðinni. Önundur hefur hins vegar undið sínu kvæði í kross og hefur meistaranám hjá Reyst, sem er alþjóðlegur skóli í samstarfi Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur og einblínir á sjálfbæra orku.
„Ég hefði getað haldið áfram úti í Árósum, en það er mjög kostnaðarsamt að stunda nám erlendis þannig að ég ákvað að kom aftur heim og snúa mér að því sem ég hafði alltaf hugsað mér. Endurnýjanleg orka og allt í kringum það er mjög áhugavert svið og þar er hellingur að gerast og á tímum eins og í dag er þetta einn öruggasti vettvangurinn til að fá vinnu eftir nám.“
Önundur segir þó ekki loku fyrir það skotið að snúa sér aftur að málum tengdum lokaverkefninu. „Nú ætla ég að prófa eitthvað nýtt, en ég bý alltaf að því sem við gerðum og get alltaf snúið mér að því aftur síðar.“
----
Mynd / Önundur og Jesper með hringinn góða.