Verðlauna jákvæð hegðun
Í Njarðvíkurskóla, Holtaskóla og Mylllubakkaskóla ætlar starfsfólk að vinna eftir agakerfi sem ber heitið „Stuðningur við jákvæða hegðun“ og er þýðing á Positive Behavior Support eða PBS.
Miðvikudaginn 1.október kl. 20 – 21 verður kynningarfundur á sal Njarðvíkurskóla fyrir aðstandendur nemenda skólans. Á mánudaginn n.k. verður formlega byrjað að vinna eftir kerfinu innan skólans. „Við erum öll búin að leggja mikla vinnu í þetta kerfi og höfum fulla trú á því að þetta virki,“ segir á heimasíðu skólans.
Í Holtaskóla var kerfið kynnt fyrir aðstandendum og mættu 100 manns að sögn Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar, aðstoðarskólastjóra. Hann sagði að þeir hefðu fengið jákvæð viðbrögð og allur undirbúningur væri langt kominn. Eftir áramót verður unnið samkvæmt PBS í Holtaskóla og á að umbuna nemendum fyrir jákvæða hegðun en það verður mismunandi eftir aldri nemandans hvernig umbun hann fær að sögn Eðvarðs.
Steinar Jóhannsson, aðstoðarskólastjóri Myllubakkaskóla, sagði að í Myllubakkaskóla var ákvörðun tekin að vinna með PBS en þeir eru ekki komnir svo langt að halda kynningar fyrir aðstandendur. Starfsfólk skólans er núna í undirbúningsvinnu þar sem allir læra um PBS og verða tilbúnir til að vinna eftir kerfinu þegar þar að kemur.
Samkvæmt heimildum þá byggist PBS á því að allir starfsmenn í skóla stuðli að góðum og jákvæðum aga og móta þannig og viðhalda æskilegri hegðun nemenda. Hugmyndin er að skapa gott skólastarf með því að taka á hegðun með jákvæðum og kerfisbundnum hætti en ekki horfa á neikvæða hegðun og beita refsingum. Hingað til hefur það verið talsvert útbreidd stefna að móta hegðun skólabarna með því að refsa fyrir óæskilega hegðun eða vísa börnum úr skóla en PBS styrkir jákvætt atferli nemenda.
Niðurstaða rannsókna sýnir að neikvæðar aðgerðir draga hvorki úr óæskilegri hegðun né kenna æskilega hegðun. Það er árangursríkara að útskýra til hvers er ætlast, kenna markvisst æskilega hegðun og styrkja hana á kerfisbundin hátt.
Mynd-VF/IngaSæm
Hressir grunnskólanemendur.