Verðlækkun á skólamáltíðum í Reykjanesbæ
Reykjanesbær var fyrsta sveitarfélagið til þess að bjóða upp á heitar máltíðir í öllum grunnskólum bæjarins. Mikill metnaður var lagður í að vel yrði staðið að mötuneytunum og almennt má segja að vel hafi tekist til. Nú hafa hinsvegar komið fram á sjónarsviðið fyrirtæki sem sérhæfa sig í rekstri skólamötuneyta og framleiðslu skólamáltíða.
Rekstur skólamötuneyta í grunnskólum Reykjanesbæjar var því boðinn út og fjögur tilboð bárust. Bærinn áskildi sér rétt til að falla frá öllum tilboðum ef þau uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru til mötuneyta skólanna eða þau ekki samkeppnishæf hvað verð varðar.
Lagt var mat á fjölbreytileika matseðla, hollustu, menntun og reynslu bjóðenda og útfærslu á rekstri til jafns við verð. Framkvæmd útboðsins var í höndum Ríkiskaupa og niðurstaða mats á tilboðum er sú að Matarlyst-Atlanta þótti hæfasti bjóðandinn. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur fallist á niðurstöðu Ríkiskaupa og samþykkt að ganga til viðræðna við fyrirtækið.
Starfsfólk skóla mun áfram sjá um, ásamt starfsmanni verktaka, að útdeila mat og sjá um að allt fari vel fram meðan á máltíðum stendur og allt fyrirkomulag máltíða verður með líku sniði og verið hefur. Helstu breytingar sem foreldrar verða varið við snúa að sölu máltíða en nú verður ekki lengur þörf á að fara niður á bæjarskrifstofur til þess að kaupa matarkort. Sala máltíða verður alfarið í höndum verktaka.
Nýjung er að boðið verður upp á áskrift samhliða matarkortunum. Stök máltíð mun áfram kosta 235 krónur en máltíð í áskrift verður boðinn á 185 krónur. Þetta er um það bið 20% lækkun frá núverandi verði og jafngildir því að fimmta hver máltíð sé frí. Uppeldislegt gildi skólamáltíða felst í því að nemendur temji sér að borða fjölbreyttar, hollar og rétt samsettar máltíðir og við samsetningu matseðla styðst verktaki við ráð Lýðheilsustöðvar. Með því að kaupa máltíðir í áskrift geta foreldrar frekar tryggt að barnið nærist á réttan hátt og læri að borða fjölbreyttan og góðan mat.
Matarlyst-Atlanta mun vinna að útfærslu verksins með skólayfirvöldum í hverjum skóla fyrir sig og áhersla var lögð á það í útboðsgögnum að samvinna yrði höfð við foreldraráð skólanna. Vinna við undirbúning mun fara af stað á næstu vikum og verður fyrirkomulagið kynnt nánar þegar líða fer að skólasetningu.
Þetta fyrirkomulag hefst við upphaf skólastarfs í haust og það er von bæjaryfirvalda og skólastjórnenda að vel takist til og að foreldrar og nemendur verði sem minnst varir við breytinguna. Sjálfsagt eiga eftir að koma upp atriði sem þarf að bæta og fólk hvatt til að koma með ábendingar í gegnum foreldraráð skólanna.
Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.