Verða að vera innan bæjarmarka á fjarfundi
Bæjarfulltrúar í Sveitarfélaginu Vogum verða að vera innan bæjarmarka sveitarfélagsins þegar þeir sitja fjarfund í bæjarstjórn.
Samþykktir sveitarfélagsins voru til umræðu á síðasta fundi bæjarráðs en breytingatillögu um málið hafði verið vísað til ráðsins.
„Samkvæmt upplýsingum frá stjórnsýsluendurskoðanda sveitarfélagsins er ekki heimilt að þátttakendur í fjarfundum bæjarstjórnar séu staddir utan sveitarfélagsins, skv. gildandi sveitarstjórnarlögum. Ekki er því heimilt að gera þá breytingu sem lögð er til.“
Þá leggur bæjarráð til að fundartími bæjarstjórnar verði óbreyttur, þ.e. kl. 18 síðasta miðvikudag mánaðar og var það samþykkt.