Velunnarar sýna hug í verki
Í dag eru 55 ár liðin frá því að fyrsti sjúklingurinn var lagður inn á Sjúkrahús Keflavíkur, sem nú heitir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þess var minnst í dag með athöfn framan við höfuðstöðvar stofnunarinnar þar sem slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja hylltu stofnunina og starfsfólk hennar með tignarlegum vatnsboga. Á eftir var svo starfsfólki og velunnurumm HSS boðið í kaffi og kökur.
HSS hefur engan veginn notið sambærilegra fjárveitinga frá ríkinu miðað við aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. Stofnunin hefur því sem betur fer notið velvildar ýmissa líknarfélaga, samtaka og einstaklinga sem hafa fært henni ótal styrktargjafir í formi nauðsynlegra tækja eða fjarmagns til tækjakaupa. Við þetta tækifæri í dag taldi Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS, upp þær fjölmörgu gjafir sem stofnuninni hafa borist að undanförnu og má þar helst nefna tölvusneiðmyndatæki sem væntanlegt er innan tíðar.
Við munum greina nánar frá þessum gjöfum síðar í annarri umfjöllun.
Efri mynd:
Slökkviliðsmenn BS hylltu HSS og starfsfólk stofnunarinnar með tignarlegum vatnsboga.
Neðri mynd:
Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS, taldi upp þær fjölmörgu gjafir sem velunnarar stofnunarinnar hafa fært henni að undanförnu.
VFmyndir/elg.