Velferðarráðuneytið svarar ekki ósk um 4. hæðina á Nesvelli
- framkvæmdaaðilar að falla á tíma og þurfa að setja þak á húsið
Nú liggur ljóst fyrir að fjórða hæðin verður ekki sett á nýtt hjúkrunarheimili sem er í byggingu á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Með fjórðu hæðinni hefði rúmum á heimilinu verið fjölgað úr 60 í 80, sem þykir hagkvæmasta rekstrareiningin. Ástæðan er sú að velferðarráðuneytið hefur ekki svarað beiðni sveitarfélaganna, sem standa að byggingu hjúkrunarheimilisins, um stækkunina.
Í október í fyrra sótti Reykjanesbær um það til velferðarráðuneytisins að fá að bæta við einni hæð á hjúkrunarheimilið sem nú er í byggingu, þannig að það yrði 80 rúma sem þykir hagkvæmasta stærð í rekstri svona heimila.
Í desember sl. barst svar þar sem kallað var eftir að öll sveitarfélögin sem standa að Dvalarheimi aldraðra á Suðurnesjum, sem eru auk Reykjanesbæjar Sveitarfélagið Garður, Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Vogar, þyrftu að sameinast um þessa ósk.
Staðfesting á samstöðu sveitarfélaganna í málinu var send til ráðuneytisins í mars sl. og hefur ráðuneytið staðfest að það sé með málið til meðferðar.
„Það hafa engin svör borist frá velferðarráðuneytinu, þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um það og viðvaranir um að tíminn væri runninn út. Nú erum við fallin á tíma og því verður líklega ekkert af því að fjórða hæðin með 20 rúma viðbót verði við þau 60 rými sem nú rísa á Nesvöllum,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í samtali við Víkurfréttir.
„Nú er verið að setja loftaplötuna á þriðju hæð hússins og í framhaldinu er þakið sett á. Það hefði ekki orðið sérstakur aukakostnaður ef við hefðum getað haldið beint áfram með fjórðu hæðina eins og við óskuðum eftir. Nú myndi tugmilljóna kostnaður fara að bætast við, ef breyta ætti þaktengingum til að bæta henni við og miklar tafir verða á verkinu að auki,“ sagði Árni.