Velferðarráð hefur áhyggjur af fjölda barna í tölum um fjárhagsaðstoð
Velferðarráð Reykjanesbæjar hefur miklar áhyggjur af þeim fjölda barna sem eru á bak við tölur um fjárhagsaðstoð og telur brýnt að lögð verði áhersla á úrræði fyrir barnafjölskyldur.
Í maí 2023 fengu 364 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar rúmlega 52 milljónir króna, eða 143.491 krónur að meðaltali á einstakling. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 77 heimila sem á bjuggu samtals 175 börn.
Sveitarfélagið fær endurgreiðslu frá ríkinu að upphæð 34,5 milljónir króna, samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í sama mánuði árið 2022 fengu 243 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð en alls voru greiddar 33 milljónir króna. eða að meðaltali 136.007 krónur á einstakling.
Í maí fengu alls 299 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals tæpar 6,3 milljónir króna. Í sama mánuði 2022 fengu 303 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals 4,6 milljónir króna.