Vélarvana skemmtibát rak að landi austur af Vogum
Mikill viðbúnaður var hjá sjóbjörgunarsveitum á suðvesturhorninu í gærkvöldi þegar tilkynning barst um vélarvana skemmtibát sem rak að landi rétt austan Atlagerðistanga við Voga á Vatnsleysuströnd.
Áhöfnin á bátnum hafði rekið mótorinn niður og varð báturinn vélarvana um 300-400 metra frá landi. Um hálftíma eftir að útkallið barst rak bátinn að landi, fólkið komst að sjálfsdáðum í land og engin slasaðist.
Björgunarsveitarfólk á björgunarbát frá Reykjanesbæ kom á vettvang stuttu síðar og dró bátinn til hafnar í Vogum og aðrir björgunarbátar sem mættir voru á vettvang fylgu bátnum til öryggis. Þrátt fyrir nokkuð rok og öldugang gengu aðgerðir vel.
Samtals tóku um 40 björgunarsveitarmenn þátt í aðgerðinni á bátum frá Sandgerði, Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík.
Myndirnar tók Jökull Þráinsson frá HSSK.