Vélarvana og með fullfermi af sementi til Helguvíkur
Komið var með vélarvana flutningaskip til Helguvíkurhafnar í gær. Flutningaskipið Cemluna varð vélarvana um 100 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum í síðustu viku.
Dráttarbáturinn Togarinn sem gerður er út af Skipaþjónustu Íslands var sendur á vettvang og var taug komið á milli skipanna en veður var afleitt og þungur sjór.
Cemluna er skráð á Kýpur en var á siglingu frá Álaborg í Danmörku til Helguvíkur með sement.
Þegar dráttarbáturinn Togarinn kom með skipið á ytri höfnina við Helguvík komu hafnsögubátarnir Auðunn og Jötunn til aðstoðar við að koma flutningaskipinu að bryggju. Þegar var hafist handa við að landa úr skipinu sementsfarmi og að gera við vél skipsins.
Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari Víkurfrétta með dróna yfir Helguvíkurhöfn í gær, þegar komið var með skipið til hafnar.