Vélarvana bát komið til bjargar í Garðsjó
Þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskipið Hannes Hafstein frá Sandgerði, og björgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í hádeginu eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá vélarvana báti, Valþóri GK-123, sem staddur er um 1 sjómílu norður af Garðskagavita.
TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, hélt frá Reykjavík þegar klukkuna vantaði um tuttugu mínútur í eitt og kom að bátnum rétt um kl. 13:00.
Skipverjum tókst að stöðva rek bátsins með því að setja út akkeri.
Þegar björgunarskipið kom á staðinn og kom taug á milli bátanna var bráð hætta talin liðin hjá.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var til staðar ef á þyrfti að halda. Var henni lent á Garðskaga og svo færði þyrlan sig nær Reykjanesbæ eftir því sem björgunarskipið nálgaðist Reykjanesbæ.
Við Hólmsberg tók hins vegar Vonin við drættinum á Valþóri þar sem vandræði komu upp með aðra af aðalvélum björgunarskipsins. Vonin kom svo með Valþór að landi um kl. 16.
Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein komið á vettvang.