Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vel sóttur morgunverðarfundur Íslandsbanka
Miðvikudagur 16. mars 2005 kl. 16:20

Vel sóttur morgunverðarfundur Íslandsbanka

Margt fróðlegt kom fram á morgunverðarfundi Íslandsbanka sem var haldinn á Ránni á miðvikudag. Þeir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, og Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, héldu erindi.

Fjallaði Ingólfur um líklega þróun verðbólgu, gengis, launa og vaxta á næstunni. Í máli hans kom fram skoðun hans að krónan væri ofmetin um 20% og þyrfti að ná jafnvægi í þeim málum. Gengislækkun væri ekki endilega af hinu illa heldur myndi hún leiða til eðlilegs ástands. Spáði hann því að verðbólga gæti farið allt upp í tæp 9% á næstunni en jafnvægi gæti komist á árið 2007. Höskuldur fór yfir framtíðarsýn flugstöðvarinnar í sínu erindi og er ljóst að þar er um mikla uppbyggingu að ræða. Farþegafjöldi hefur aukist verulega, sérstaklega síðan flugfélögin fóru að bjóða upp á lægri fargjöld. Ísland er nú orðinn raunhæfur valkostur fyrir erlenda ferðamenn og gerir spá breska fyrirtækisins BAA ráð fyrir að um 3.2 milljónir farþega fari um völlinn árið 2015. Til að svara aukningunni mun húsnæði flugstöðvarinnar stækka verulega og er einnig gert ráð fyrir að bílastæðahús rísi þar sem bílastæði eru löngu búin að sprengja utan af sér.

Fundurinn var vel sóttur og voru gestir margs vísari að honum loknum.

VF-Mynd:/Þorgils - Frá morgunverðarfundi Íslandsbanka í morgun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024