Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vel sótt opið hús á samskiptadegi Heiðarskóla
Nemendur í 8.-10. bekkjum sýndu nokkur myndbönd sem þeir gerðu í vetur. VF-mynd/pket.
Miðvikudagur 14. maí 2014 kl. 06:00

Vel sótt opið hús á samskiptadegi Heiðarskóla

Þriðji samskiptadagur skólaársins í Heiðarskóla var með breyttu sniði en þá var opið hús í skólanum. Gestum gafst tækifæri til að ganga um skólann og skoða verk nemenda auk þess sem hver nemendahópur og kennarar þeirra voru með viðburði í stofum eða á sal skólans.

Gangana prýddu litrík málverk nemenda úr nokkrum árgöngum og fjölbreytt verkefni sem unnin hafa verið í smíði og textíl. Í 1. og 2. bekk fóru foreldrar og börn saman í hringekju og var þar m.a. sungið í tónmenntastöð, spiluð stærðfræðispil í heimastofu og farið í galdrakarlaleikinn í íþróttasal.
Nemendur í 3. bekk settu á svið stærðfræðisirkusinn Hókí pókí og þeir í 4. bekk kynntu íslensk fjöll. Í 5. bekk voru ýmis verkefni til sýnis í og fyrir utan skólastofurnar en nemendur gerðu landafræðiverkefni með foreldrum sínum þar sem skoðaðir voru áhugaverðir staðir á Íslandi. Nemendur í 6. bekk kynntu þemaverkefni sín um Norðurlöndin og nemendur í 7. bekk gerðu slíkt hið sama með þemaverkefni sín um Evrópulöndin. 8. bekkur kynnti ýmis verkefni sem unnin hafa verið, m.a. myndbönd og 9. bekkur sýndi myndbönd sem hafa verið unnin í nokkrum námsgreinum.

Upplýsingafundur um útskriftarferðalag og starfskynningu var svo haldinn í 10. bekk en þar voru jafnframt sýnd nokkur myndbönd sem unnin voru á stuttmyndadögum, segir í tilkynningu frá Heiðarskóla.

Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari VF á samskiptadeginum og nokkrar eru af heimasíðu Heiðarskóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024