Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vel heppnuð útskriftarathöfn Keilis í Hljómahöll
Mánudagur 16. janúar 2023 kl. 10:12

Vel heppnuð útskriftarathöfn Keilis í Hljómahöll

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 43 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 13. janúar. Athöfnin var vel heppnuð og fjölsótt og hafa nú 4595 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar.

Í athöfninni voru útskrifaðir 28 nemendur af Háskólabrú, 12 úr fótaaðgerðafræði og 3 úr stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

Hjördís Egilsdóttir og Arnór Sindri Sölvason hófu athöfnina með ljúfu tónlistaratriði fyrir viðstadda. Því næst flutti Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, ávarp og stýrði sjálfri athöfninni.



Háskólabrú brautskráði samtals 28 í fjarnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Helgu Lind Sigurbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Ágústa Pétursdóttir með 9,64 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Rakel Ósk Orradóttir Amin hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.



Menntaskólinn á Ásbrú brautskráði samtals 3 nemendur af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður MÁ flutti ávarp og afhenti skírteini ásamt Kristínu Stellu Lorange, kennara MÁ. Ágúst Máni Jóelsson flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema MÁ.

Þetta var þriðja útskrift Menntaskólans á Ásbrú sem hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrstu nemendur skólans hófu nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stúdentsbrautin er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa.



Heilsuakademían brautskráði 12 nemendur í 
fótaaðgerðafræðiElvar Smári Sævarsson, forstöðumaður Heilsuakademíunar, flutti ávarp og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl ásamt þeim Haddý Önnu Hafsteinsdóttur og Auði Ósk Ingimarsdóttur frá fótaaðgerðafélagi Íslands. Dúx fótaaðgerðafræðinnar var Hrafnhildur Árnadóttir með 9,62 í meðaleinkunn og hlaut hún fékk hún gjöf frá Áræði heildverslun og EM heildverslun. Anna Svava Traustadóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema fótaaðgerðafræði.

Boðið hefur verið upp á nám í fótaaðgerðafræði hjá Keili síðan 2017 og er þetta sjötti nemendahópur Keilis sem útskrifast úr fótaaðgerðafræði. Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar um fagleg vinnubrögð og nákvæmni og áreiðanleika í starfi. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024