Vel heppnuð safnahelgi á Suðurnesjum
Vel tókst til með Safnahelgi á Suðurnesjum sem haldin var í fyrsta sinn um liðna helgi. Margföld aðsókn var á söfnin þrátt fyrir slæmskuveður alla helgina enda bryddað upp á ýmsum skemmtilegum uppákomum sem fólk lét ekki framhjá sér fara.
Á föstudag var myndlistarsýning Huldu Vilhjálmsdóttur, Það sem gerðist, opnuð í Listasal Reykjanesbæjar í Duushúsum. Við opnunina framkvæmdi listakonan líflegan gjörning sem vakti lukku viðstaddra. Á laugardag bauð Hulda gestum upp á leiðsögn um sýninguna. Þennan sama dag hélt Þjóðlagasveit Ragnheiðar Gröndal frábæra tónleika fyrir fullu húsi í Bíósal. Á sunnudag var boðið upp á skemmtilega og vel sótta tónleika með Einari Júlíussyni og Baldri Þóri Guðmundssyni í Gryfjunni, sýningarsal Byggðasafnsins. Þeir tónleikar áttu vel við þar sem um var að ræða síðustu sýningarhelgi á sýningunni Vagg og velta sem fjallaði einmitt um rokkárin á Íslandi.
Ljóst er að menningartengdir viðburðir eiga upp á pallborðið hjá bæjarbúum sem margir hverjir birtust í formi vinahópa, saumaklúbba eða gesta af höfuðborgarsvæðinu.