Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 14. júní 2000 kl. 10:41

Vel heppnuð ráðstefna um starfsmenntun í Eldborg

Ráðstefna um starfsmenntun var haldin í Eldborg í Svartsengi s.l. fimmtudag þar sem Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar og Fjölbrautaskóli Suðurnesja, auk samstarfsaðila frá Portúgal og Danmörku, buðu til sín um 40 gestum. Tilgangur ráðstefnunnar var að kynna niðurstöður verkefnisins „European Regional Vocational Counsellor“ sem þessir aðilar hafa unnið að s.l. 3 ár, undir merkjum Leonardo da Vinci áætlunar Evrópusambandsins. Rafrænar upplýsingar Kynnt voru drög að rafrænnni útgáfu handbókar sem þátttökuþjóðirnar hafa unnið í sameiningu, hver í sinni heimabyggð. Hluti af þessu verkefni er skýrslan „Reykjanes 2003“ sem Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan lét gera, en hún er framtíðarspá um fjölda íbúa, atvinnu-, mennta- og skipulagsmál á Suðurnesjum. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að í iðngreinum er nokkur skortur á fagmenntuðu vinnuafli og í mörgum öðrum greinum einnig. Aukin menntun er styrkur Að sögn Helgu Sigrúnar Harðardóttur, atvinnumálaráðgjafa, var góð mæting á ráðstefnuna en hana sótti fólk víðsvegar af landsbyggðinni. Niðurstöður vinnuhópa sem skipaðir voru að kynningu lokinni leiddu í ljós að aukin menntun styrkir í öllum tilvikum byggðalög, og nauðsynlegt er fyrir atvinnulíf og menntastofnanir að vinna vel saman að uppbyggingu aukinnar menntunar í atvinnulífinu. Sú uppbygging er á ábyrgð margra, þ.e. atvinnuþróunarfélaga, menntastofnana eins og Miðstöðvar símenntunar, atvinnulífsins, bæjar- og sveitarstjórna og verkalýðs- og vinnuveitendafélaga. „Dæmi eru, t.d. frá Horsens í Danmörku, að samvinna allra þessarra aðila hafi gjörbreytt ímynd svæðisins, en í stað þess að vera þekkt fyrir ríkisfangelsið þar sem ósvífnir glæpamenn eru vistaðir, er Horsens nú þekkt fyrir öfluga tækniháskóla og gríðarlega öfluga símenntun en fjölmargir Íslendingar hafa stundað þar nám“, segir Helga Sigrún. Stefnumótun til framtíðar MOA vinnur nú að gerð nýrrar skýrslu, Reykjanes 2005, sem kemur til með að gefa mikilvægar vísbendingar um þróun ársverka, þörf atvinnulífsins fyrir tiltekna menntun og skiptingu stöðugilda eftir atvinnugreinum. „Slíkar upplýsingar gefa Suðurnesjamönnum forskot á aðra landshluta en með þeim verður hægt að byggja stefnumótun til framtíðar og styrkja innviði atvinnulífsins með því að bjóða upp á vel menntað og vel þjálfað vinnuafl sem eftirsótt verður á vinnumarkaði. Ekki þarf í öllum tilvikum að koma til langskólanám eða háskólapróf til að þetta sé gerlegt, heldur öflug endur- og símenntun sem á sér fyrst og fremst stað úti í atvinnulífinu“, segir Helga Sigrún að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024