Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vel heppnuð kynnisferð Lykil Ráðgjafar Teymis um Reykjanes
Föstudagur 23. september 2005 kl. 13:43

Vel heppnuð kynnisferð Lykil Ráðgjafar Teymis um Reykjanes

Lykil Ráðgjöf Teymi stóð í gær fyrir kynnisferð um Reykjanes með fulltrúum frá sveitarfélögum, fyrirtækjum, og öðrum aðilum úr stoðkerfi atvinnulífsins á svæðinu. Ferðin var í samstarfi við Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum og voru atvinnumál, sérstaklega ferðaþjónusta, efst á baugi.

Hópurinn kom við í Lækningarlind Bláa lónsins þar sem þau fengu ítarlega greinargerð um starfsemi hinnar glæsilegu aðstöðu sem reis í Svartsengi á síðasta ári. Þar hefur verið mikil ásókn í meðferðir við Psoriasis auk þess sem verið sé að athuga með að hleypa almennum gestum inn í Lækningarlindina á þeim tímum sem eftirspurn sjúklinga er minnst.

Gestirnir lýstu yfir mikilli hrifningu á aðstöðunni og aðspurð sagði Anna Sverrisdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bláa lónsins, að 25 herbergi væru á teikniborðinu í viðbót við þau sem þegar eru.

Þar næst var litið út að Reykjanesvirkjun þar sem framkvæmdir ganga vel fyrir sig. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, kynnti verkefnið í stuttri tölu og fór m.a. yfir möguleikana sem byggingin hefur til að draga að ferðamenn. Hitaveita Suðurnesja ráðgerir í samstarfi við Reykjanesbæ að koma þar upp sýningunni „Orkuverið Jörð“ þar sem verður komið fyrir aðstöðu sem kynnir orkunýtingarmöguleikar jarðarinnar. Er fastlega búist við því að framtakið eigi eftir að vekja mikla athygli og renna enn einni stoðinni undir ferðaþjónustuiðnaðinn á Reykjanesi.

Endastöð ferðarinnar var úti á Garðskaga, en áður en þangað var komið var litið við í Sandvík. Þar er frágangi að ljúka eftir tökur á Flags of our Fathers og fór Tómas Knútsson, hershöfðingi Bláa Hersins og starfsmaður myndarinnar, yfir framgang tökunnar í sumar. Sagði hann að forráðamenn myndarinnar hefðu lýst yfir mikilli virðingu fyrir landi og þjóð og ánægju með hvernig til tókst.

Á Garðskaga var áð í Byggðasafninu þar sem glæsileg viðbyggingin var kynnt fyrir gestum og að því loknu var boðið upp á veitingar í Flösinni, kaffiteríunni sem staðsett er í sama húsi.

Þar tók Jón Karl Ólafsson, formaður Samtaka Ferðaþjónustunnar, til máls og hélt athyglisvert erindi um framtíðarþróun ferðaþjónustu og lagði áherslu á að breytinga væri þörf í allri umgjörð ferðamennsku.
Þrátt fyrir að margt væri gott þyrftu allir aðilar á Íslandi að einbeita sér betur að því að taka höndum saman um að styrkja ferðaþjónustu í stað þess að keppa innbyrðis um ferðamenn. Þá væri einnig þörf á að fá meiri fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn, en með því væri hægt að tryggja áframhaldandi vöxt ferðaþjónustuiðnaðarins og ekki væri óraunhæft að tvöfalda hann frá því sem nú er fyrir árið 2012.

Í lok fundar sýndu fulltrúar Lykil Ráðgjafar Teymis myndband sem kynnti hugmyndir þeirra um framtíðarsýn ferðaþjónustu og samþættingu bæjarhátíðanna sem hafa verið óhemju vinsælar undanfarin ár. Nægir í því sambandi að minnast á Ljósanótt, Menningarnótt og Sandgerðisdaga, en nú eru um 50 slíkar hátíðir um land allt frá voru fram á haust.

Verkefnið er framhald af verkefninu „Blái Demanturinn“ sem lýtur að eflingu ferðaþjónustu á Reykjanesi með aukinni samvinnu allra aðila sem koma þar að.

Að loknum fundi var skrifað undir samstarfssamninga Lykil Ráðgjafar við annars vegar sjálfseignastofnunina Leiðsögumenn Reykjaness, og hins vegar Bláa Herinn um nánara samstarf á næstu árum.

Áður en fundarmenn héldu til síns heima voru þeir leystir út með forláta kuldaúlpum, merktum „Bláa Demantinum“ og styrktaraðilum, Hitaveitu Suðurnesja, SSS og Sparisjóðnum í Keflavík.

Ríkharður Ibsen, framkvæmdastjóri Lykil Ráðgjafar Teymis, sagðist í samtali við Víkurfréttir vera ánægður með ferðina og taldi að flestir hefðu haft gegn og gaman af. Þá var hann einnig glaður með þau góðu viðbrögð sem hugmyndir þeirra fengu enda séu þeir að fara af stað með afar stóra hluti.

VF-myndir/Þorgils: 1: Jón Karl hélt athyglisvert erindi á Flösinni, 2: Ferðalangar virða fyrir sér framkvæmdir við Reykjanesvirkun, 3: Úr lækningalind Bláa lónsins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024