Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vel heppnuð Fjörferð Fjörheima til Vestmannaeyja
Þriðjudagur 1. febrúar 2005 kl. 15:11

Vel heppnuð Fjörferð Fjörheima til Vestmannaeyja

Félagsmiðstöðin Fjörheimar fór með unglingana sem hafa tekið þátt í Fjörleik Fjörheima starfsárið 2004-2005 til Vestmannaeyja helgina 28. - 30 janúar s.l. Lagt var af stað frá Fjörheimum klukkan 17.00 á föstudeginum og ekið áleiðis til Þorlákshafnar. Ferðin með Herjólfi gekk vel en nokkur ungmenni urðu vör við hina alræmdu sjóveiki.
Sumir höfðu á orði að nú væri það morgunljóst að stefnan væri ekki tekin á hið erfiða starf að vera sjómaður.
Þegar til Eyja var komið var labbað á gististað sem var Barnaskóli Vestmannaeyja. Þegar unglingarnir höfðu lokið við að koma sér fyrir tók við sprell í skólastofunum.

Á laugardeginum gátu unglingarnir valið sér afþreyingu. Boðið var upp á keppni í Singstar og Fifa fótboltamóti.
Sumir völdu það en aðrir skoðuðu sig um í eyjunni og fóru að spranga. Um kvöldið var svo undankeppni fyrir söngkeppni Samfés en félagsmiðstöðvar frá Suðurkjördæmi tóku þátt.
Birna Ásgeirsdóttir nemandi í Heiðarskóla söng fyrir hönd Fjörheima og stóð sig með mikilli prýði en komst þó ekki áfram enda keppnin gríðarlega mikil. Eftir keppnina var svo heljarinnar dansleikur og mikið stuð.

Sunnudagur fór að mestu í frágang, sundferð og skoðunarferð. Heimstímið frá Vestmannaeyjum var mun betra en til Eyja og nánast engir urðu sjóveikir á leiðinni heim.

Vel heppnaðri Fjörferð lauk um 21.00 í Fjörheimum í Reykjanesbæ. Umsjónarmönnum þykir vert að koma á framfæri hrósi til unglinganna sem voru til fyrirmyndar í alla staði í ferðinni og voru sjálfum sér, foreldrum og félagsmiðstöðinni sinni til mikils sóma.
Af vef Fjörheima
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024