Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vel gekk að ráða í sumarstörf
Mánudagur 8. maí 2017 kl. 06:00

Vel gekk að ráða í sumarstörf

Atvinnuástandið á Suðurnesjum er með besta móti um þessar mundir. Mörg fyrirtæki hafa ráðið til sín sumarstarfsfólk undanfarið. Hjá Isavia, Bláa Lóninu og Airport Associates hefur gengið vel að ráða.

Vel hefur gengið að ráða í störf hjá Bláa Lóninu fyrir komandi sumar en ráðið verður í 60 til 70 sumarstörf. Um 1.100 umsóknir um störfin bárust. Aðsókn að Bláa Lóninu er nokkuð jöfn yfir árið og ekki mikill munur á sumri og vetri. Að sögn Más Mássonar, yfirmanns mannauðsmála Bláa Lónsins, er starfsfólk fyrirtækisins ýmist búsett á Suðurnesjum eða höfuðborgarsvæðinu og er boðið upp á rútuferðir til og frá vinnu fyrir vaktavinnufólk, bæði frá Reykjanesbæ og höfuðborgarsvæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Halda kynningar fyrir vini og kunningja starfsfólks
Sökum þess hversu gott atvinnuástandið er um þessar mundir hafa fyrirtæki þurft að beita óhefðbundnum leiðum til að laða til sín starfsfólk. Að sögn Más hefur Bláa Lónið leitast við að skapa vinnuumhverfi sem er hvetjandi, faglegt og skemmtilegt. „Við höfum kynnt Bláa Lónið sem vinnustað í gegnum sérstaka atvinnusíðu þar sem við segjum frá lífinu í Lóninu. Eins erum við með sérstaka atvinnu-Facebook síðu þar sem við segjum frá störfum í boði og hvað er í gangi hjá okkur,“ segir hann. Þá hafa verið haldnar sérstakar kynningar fyrir vini og kunningja starfsfólks undir heitinu „Veldu þér vinnufélaga“ þar sem Bláa Lónið er kynnt sem vinnustaður.

Um 1.900 umsóknir bárust Isavia og Fríhöfninni
Hjá Isavia/Fríhöfninni var ráðið í 400 sumarstörf á Keflavíkurflugvelli í ár. Að sögn Sóleyjar Rögnu Ragnarsdóttur, mannauðsstjóra Isavia á Keflavíkurflugvelli, gengu ráðningar mjög vel en um 1.900 umsóknir bárust. Ekki þurfti að grípa til þess ráðs að leita starfsmanna utan landssteinanna. „Ráðist var í sérstakt átak í vetur þar sem sumarstörfin voru kynnt með myndböndum á samfélagsmiðlum. Þá voru auglýsingar hengdar upp í öllum framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu og í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Lágmarksaldur starfsfólks var lækkaður úr 20 árum í 18 ár í vor,“ segir hún. Starfsmenn Isavia búa ýmist á Suðurnesjum eða á höfuðborgarsvæðinu en boðið er upp á fríar rútuferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu. „Það ríkir mikil samkeppni um gott starfsfólk hérna á flugvellinum. Við höfum lagt okkur fram um að taka vel á móti öllu okkar fólki og greiðum laun fyrir undirbúningsnámskeið að uppfylltum ákveðnum lágmarkskröfum.“ Þá segir hún starfsmannafélagið öflugt og að það standi fyrir fjölda viðburða yfir sumarið og að það skipti miklu við að gera vinnustaðinn aðlaðandi fyrir ungt fólk.

Nánast hætt að hugsa um sumartímabil
Hjá Airport Associates hefur gengið vel að ráða starfsfólk. Þar var byrjað að ráða aðeins fyrr en áður og hefur það reynst vel. Hjá fyrirtækinu er stefnt að því að hafa lokið við ráðningar í lok maí. Að sögn Sigþórs Kristins Skúlasonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hafa starfsmenn verið ráðnir jafnt og þétt síðan um áramót en flestir hófu störf í apríl og maí. „Við erum nánast hætt að hugsa í sumartímabilum og flestir starfsmenn sem hjá okkur starfa eru ekki bara ráðnir tímabundið. Einhverjir starfsmenn eru með tímabundna ráðningasamninga þar til í lok október en fá að öllum líkindum áframhaldandi vinnu ef óskað er eftir,“ segir Sigþór.

Starfsmenn Airport Associates eru bæði búsettir á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig hafa verið ráðnir starfsmenn frá útlöndum, flestir frá Póllandi. Fyrirtækið býður starfsmönnum sínum upp á fríar rútuferðir á Suðurnesjum og niðurgreiddar rútuferðir frá höfuðborgarsvæðinu. Þá er einnig boðið upp á leiguhúsnæði.