Vekja athygli á jákvæðri sókn á Reykjanesi
Víkurfréttir og Samtök atvinnurekenda efna til fundaherferðar í haust.
Víkurfréttir og Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR) hafa gert með sér samkomulag um að standa að fundaherferð á Reykjanesi frá og með haustinu 2015. Markmiðið er að vekja athygli á jákvæðum vexti í atvinnulífinu og þannig styrkja ímynd svæðisins sem laskaðist verulega eftir bankahrun.
Verulegur vöxtur hefur verið á ýmsum sviðum í atvinnulífinu sem hefur einnig skilað sér út í mannlífið almennt. Frá þessu vilja Víkurfréttir og SAR greina og verður það gert skipulega í miðlum VF, blaði, vef og sjónvarpi.
Stefnt er að því til að byrja með að halda mánaðarlega fundi í öllum sveitarfélögunum á Reykjanesi og mun herferðin hefjast næsta haust. Á fundunum sem verða í hádeginu munu aðilar úr atvinnulífinu verða með stuttar kynningar auk þess sem almennt verður farið yfir stöðu mála.
„Við viljum snerpa á þeirri staðreynd að Suðurnesjamenn eru á uppleið í atvinnulífinu og öðrum greinum. Formlegt samstarf við Víkurfréttir er hugsað til að snerpa á umræðunni sem hefur oft verið neikvæð í garð Suðurnesja. Á fundunum ætlum við að upplýsa um stöðu mála og vonast til að fá sem flesta úr atvinnulífinu til að mæta og þannig taka þátt í því að styrkja umræðuna,“ segir Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Samstaka atvinnurekenda á Suðurnesjum.
Aðilar frá mörgum af stærstu fyrirtækjum á Reykjanesi á fundi Samtaka atvinnurekenda. Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra var gestur fundarins.