Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vekja athygli á íslenskum aðstæðum
Fimmtudagur 13. júlí 2006 kl. 11:44

Vekja athygli á íslenskum aðstæðum

Illa útleiknum fólksbíl hefur verið komið upp á gám við Reykjanesbraut ofan Reykjanesbæjar sem áminning fyrir erlenda ferðamenn. Verkefnið er samstarfsverkefni forvarnadeildar Sjóvá og bílaleiga í landinu og beinast spjótin aðallega að erlendum ferðamönnum á bílaleigubílum.

 

„Við erum að vekja athygli á því hvaða aðstæðum erlendir ferðamenn mega búast við þegar þeir aka um á íslenskum vegum,“ sagði Einar Guðmundsson, forvarnafulltrúi Sjóvá, í samtali við Víkurfréttir. Einar benti á bílinn sem er uppi á gámnum og sagði að hann hefði hafnað utan malarvegar þar sem erlendir ferðamenn voru að aka honum. „Margir hverjir þekkja ekki þessar aðstæður, að aka á möl, og missa því stjórn á bílnum, sem betur fer varð ekki slys á fólki í þessum bíl því þau voru í belti,“ sagði Einar.

 

Einar sagði að það væri leiðinlegt til þess að vita að stór hluti erlendra ferðamanna notuðust ekki við bílbelti á ferð sinni um landið. „Við höfum útbúið sérstakt plakat sem fer í alla bílaleigubíla þar finna má kort af landinu sem og helstu merkingar sem finna má þegar ekið er um malarvegi. Við erum að vonast til þess að erlendir ferðamenn komist á heilu og höldnu frá landinu og eigi góðar minningar um ferðalag sitt hér,“ sagði Einar að lokum.

 

VF-mynd/ [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024