Veita 135 milljónum króna í að ljúka dýpkun við Miðgarð
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur samþykkt samhljóða tillögu bæjarráðs um 135 milljóna króna viðauka við fjárhagsáætlun 2018 til að klára alla dýpkunina við Miðgarð. Viðaukinn verði fjármagnaður með lækkun á handbæru fé.
Hafnarstjórn hafði óskað eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2018 til að klára alla dýpkunina við Miðgarð. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin komi á samgönguáætlun 2019-2023. Þá er gert ráð fyrir að verkið kosti 135 milljónir króna og hlutur Grindavíkurbæjar er 40%. Þó er gert ráð fyrir að Grindavíkurbær leggi alfarið út fyrir þessu og endurgreiðslan komi ekki fyrr en í fyrsta lagi 2019.