Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Veiðikona féll tvisvar í höfnina
Föstudagur 8. júní 2012 kl. 17:42

Veiðikona féll tvisvar í höfnina

Allt tiltækt björgunarlið frá Brunavörnum Suðurnesja og lögreglunni á Suðurnesjum var kallað að Keflavíkurhöfn nú rétt áðan þar sem kona hafði fallið í höfnina og það tvívegis.

Konan mun samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta hafa verið verið við veiðar. Hún var að kíkja eftir spúni sem festist í þaragróðri þegar hún steyptist fram fyrir sig í höfnina en fallið er nokkrir metrar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Konunni tókst að komast að stiga og átti örfá þrep eftir upp á bryggjuna þegar þrekið var búið og við það féll hún aftur í höfnina.

Slökkviliðsmaður í flotbúningi fór í sjóinn til að bjarga konunni en henni var síðan komið upp á bryggju með aðstoð körfubíls slökkviliðsins. Þar fékk hún teppi og var síðan flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.

Hjá lögreglunni á Suðurnesjum fengust þær upplýsingar að konunni hafi ekki orðið meint af volkinu en hún hafi þó verið orðin köld, enda búin að falla tvívegis í höfnina á stuttum tíma.

Lögreglan vildi ekki staðfesta að konan hafi verið undir áhrifum áfengis.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi nú áðan. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson