Veiddu 2ja tonna hákarl
Áhöfnin á línubátnum Tómasi Þorvaldssyni frá Grindavík fékk á dögunum 2ja tonna hákarl í veiðarfærin þar sem skipið var á veiðum um 100 sjómílur vestur af Reykjanesi.
Skepnur sem þessar geta oft á tíðum flækt sig illa í veiðarfærum og því var ekkert um annað að ræða en að landa ferlíkinu og kom skipskraninn þar að góðum notum. Um er að ræða svokallaðan Íslandshákarl.
„Ég ætla rétt að vona að hann verði étinn á næsta Þorrablóti. Það er lítur út fyrir að við séum búnir að fá aðila til að verka hann,“ sagði Sæmundur Halldórsson, skipstjóri á Tómasi, í samtali við VF í morgun.
Sæmundur sagði að í maga hákarlsins hefðu skipsverjar fundið fjórar lúður vel við vöxt, á að giska 15 – 20 kílóa þungar.
„Í kjafti tveggja þeirra voru lúðukrókar. Ekki langt frá okkur var lúðubátur að veiðum en hann hafði verið að kvarta yfir því að það hefði vantað svo mikið af taumum og krókum. Hákarlinn hefur því greinilega verið að gæða sér á aflanum hjá honum enda eru þeir vandlátir á fæði og borða bara það besta, “ sagði Sæmundur og hló.
Mynd: Áhöfnin með happafenginn. Strákarnir geta varla beðið eftir næsta Þorrablóti. Á myndinni eru þeir Valdimir, Vasilji, Pétur, Enok og Erlendur.