Veglegur styrkur til Íþróttabandalags Reykjanesbæjar
Í gær hlaut Íþróttabandalag Reykjanesbæjar styrk frá Tómstunda- og íþróttaráði Reykjanesbæjar upp á 7 milljónir króna. Styrkurinn verður notaður til að greiða laun íþróttaþjálfara barna 12 ára og yngri. Á fundi TÍR þann 21. nóvember 2001 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að gengið yrði til samninga við ÍRB um aðstoð bæjarins við að greiða laun íþróttaþjálfara og var ÍRB í framhaldi falið að leggja fram viðmiðunarreglur um úthlutun þessarar upphæðar til deilda og félaga innan ÍRB.Á fundi TÍR þann 28. ágúst lagði Íþróttabandalagið fram tillögu ásamt greinargerð um úthlutun á framlagi bæjarins. Til hliðsjónar var haft stefnumið Íþróttabandalagsins um „Betra félag - betri deild“ sem tekur mið af stefnumörkun ÍSÍ um „Fyrirmyndafélag - fyrirmyndadeild“. Í samkomulagi sem Jóhann B. Magnússon formaður ÍRB og Gunnar Oddsson formaður TÍR undirrituðu segir m.a.: „Við skiptingu fjármagns er tekið tillit til starfstíma og fjölda iðkenda 12 ára og yngri í viðkomandi deild/félagi. Stigaútreikningur sem ákvarðar skiptingu fjármagnsins er iðkendafjöldi sinnum starfstími á mánuð. Hver deild fær úthlutað 100 þúsund krónum við skil á möppu, þar sem fram koma þau atriði sem krafist er í stefnumiðum ÍRB um „Betra félag - betri deild“. Í máli Jóhanns B. Magnússonar formanns ÍRB kom fram að um 90% af þjálfurum barna yngri en 12 ára væru vel menntaðir og þessi styrkur frá bæjaryfirvöldum væri mikill stuðningur við þjálfun barna í þessum aldursflokkum.