Veggjakrotarar valda miklu tjóni í Sandgerði
Umfangsmikið veggjakrot á útveggjum fiskverkunarhúss í Sandgerði hefur verið kært til lögreglu. Veggjakrotari eða veggjakrotarar hafa þar farið hamförum og valdið miklu tjóni. Þeir sem geta veitt upplýsingar um hver eða hverjir þarna voru að verki eru hvattir til að láta lögregluna á Suðurnesjum vita.
Orð eins og Swag, Ganja, Danni=væló, Sweed Indica, Big Worm, Big G, Óðinn, El Barto, Búið til sk8te park, Big smoke og ýmislegt fleira sem erfitt er að lesa úr. Þá eru teiknuð leðurblökutákn á húsið og risastór reðurtákn.
Nýlega var risastórt veggjakrot á leikskóla í Reykjanesbæ þar sem reðurtákn voru í aðalhlutverki ásamt öðrum ósóma. Þá virðist veggjakrotari hafa verið á ferðinni í Garðinum þar sem málningarúða var beitt gegn pósthúsinu og auglýsingaskilti á verslun Samkaupa Strax þar beint á móti.
Myndirnar eru af hluta veggjakrotsins í Sandgerði. VF-myndir: Hilmar Bragi