Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Veggjakrot á leikskóla: Hver eru Jóhann, Anna og Fanney?
Mánudagur 23. ágúst 2004 kl. 20:57

Veggjakrot á leikskóla: Hver eru Jóhann, Anna og Fanney?

Virðingarleysi fyrir eigum annarra getur oft verið algert. Þegar starfsfólk á leikskólanum Heiðarseli í Keflavík kom til vinnu sinnar í morgun var búið að krota með bláum tússpenna á klæðningu leikskólans. Tveir veggir voru meira og minna útkrotaðir. Bæði var búið að skrifa texta og einnig teikna fígúrur. Þá var einnig búið að krota á leiktæki á leikskólalóðinni
Handbragðið benti til þess að þarna hafi verið að verki unglingar eða hálf-fullorðið fólk. Að sögn starfsfólks á leikskólanum var ekki nóg með að búið væri að krota á bygginguna, heldur þurfti að hefja vinnudaginn á því að hreinsa upp bjórflöskur og sígarettustubba af leikskólalóðinni.
Það er ósk starfsfólksins á Heiðarseli að þetta eigi sér ekki stað aftur. Meira að segja börnin eru hneyksluð á þessu framferði, enda hafa þau fyrir löngu lært að þetta er bara krass sem á heima á pappír en ekki uppi á vegg.
Einhverjar vísbendingar mætti lesa út úr því sem skrifað er á veggina. Nöfn eins og Jóhann, Anna, Fanney og skammstöfunin SKB, gætu vísað á einhvern vinahóp sem hugsanlega tengist þessu miður fallega listaverki. Veggakrotið prýðir einnig setningin FUCK YOU MAN og eitthvað annað ólæsilegt krass.

Myndin: Út úr þessu krassi má bæði lesa nafnið JÓHANN og skammstöfunina SKB.

VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024