Vegfarendur sýni sérstaka aðgát við bráðabirgðahringtorg við Grænás
Hringtorgið á Reykjanesbraut við Grænás, verður opnað til bráðabirgða í dag föstudag, kl. 10:00 enda búist við mikilli umferð Í tilefni af Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Gerð hringtorgsins er ekki lokið þar sem eftir er að steypa kantsteina, malbika eitt yfirlag, auk alls frágangs í eyjum og fláum utan vegar. Um bráðabirgðamerkingar er því að ræða og nauðsynlegt að vegfarendur aki með sérstakri gát um svæðið.
Torgið verður opið yfir helgina en aðliggjandi götum verður lokað aftur eftir helgina til að hægt verði að ljúka áðurnefndum verkefnum. Búist er við að framkvæmdinni verði síðan að mestu lokið um miðjan september.