Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vegagerðin undir smásjá Suðurnesjamanna
Föstudagur 25. janúar 2008 kl. 01:19

Vegagerðin undir smásjá Suðurnesjamanna

Því verður fylgt eftir af fullum þunga að Vegagerðin sjái til þess að merkingar á Reykjanesbraut, þar sem þrengingar eru vegna framkvæmda, verði ásættanlegar og þess eðlis að ekki hljótist slys. Merkingar á framkvæmdasvæðum á Brautinni hafa verið bágbornar. Talsmaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut segir Vegagerðina vera komna undir smásjá Suðurnesjamanna, sem séu sárir yfir þeim töfum sem þurfi að verða á tvöföldun Reykjanesbrautar.

Steinþór Jónsson, talsmaður Reykjanesbrautarhópsins, sagðist í samtali við Víkurfréttir vera vonsvikinn yfir þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið hægt að semja áfram við brúarsmiði, sem voru undirverktakar hjá Jarðvélum. Jarðvélar sögðu sig frá verkinu fyrir áramót og eftir fund með Jarðvélum og undirverktökum í vikunni er það niðurstaðan að bjóða verður verkið út að nýju. Það ferli tefur verklok um hálft ár og lýkur tvöföldun Brautarinnar því ekki fyrr en um næstu áramót, í stað júlí í sumar.

Ennþá á eftir að hefja smíði tveggja brúa, auk þess sem lokafrágangur undir malvikun er eftir frá undirgöngum við Vogastapa milli mislægra gatnamóta við Grindavíkurveg annars vegar og Vogaveg hinsvegar. Þá á eftir að ganga frá öllum mislægum gatnamótum frá Vogum og að Innri Njarðvík, auk frágangs í köntum.

Steinþór hefði kosið að Vegagerðin hefði náð samningum áfram við Eykt um að ljúka við brúarsmíðina, með því hefði verið hægt að vinna nauðsynlegan tíma. Það sé mikið hagsmunamál Suðurnesjamanna að tvöföldun brautarinnar ljúki sem fyrst.

Aðstæður á framkvæmdasvæðinu á Brautinni séu óviðunandi. Fjölmörg slys hafa orðið við illa merktar þrengingar, en sem betur fer hafi ekki orðið alvarlegt slys eða banaslys á þeim kafla sem hefur verið tvöfaldaður. Eins og veðurfarið sé hins vegar núna sé nauðsynlegt að bæta í merkingar til að tryggja enn frekar öryggi þeirra sem um Reykjanesbrautina fara.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024