Vegagerðin stöðvaði leyfislausa bílstjóra við Leifsstöð
Eftirlitsmenn frá Vegagerðinni fóru í gær í eftirlitsferð á bílastæði Keflavíkurflugvallar í gær og athuguðu leyfi þeirra aðila sem voru með hópbifreiðar og leigubíla á svæðinu. Í ljós kom að nokkrir aðilar voru ekki með sín leyfismál í lagi og voru þeir sendir af vettvangi með aðstoð lögreglu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
Samtökin fagna eftirliti enda sé það í fullu samræmi við vinnu samtakanna sem hafi á undanförnum misserum unnið að kortlagningu leyfislausrar starfsemi innan ferðaþjónustunnar. „Ljóst er að betur má ef duga skal og skora samtökin á stjórnvöld að herða viðurlög við leyfislausri starfsemi innan ferðaþjónustunnar,“ segir ennfremur.