Vegagerðin flýtir framkvæmdum við Krýsuvíkurveg
Vigdísarvallarvegur lokaður
Vegagerðin hefur hafið vinnu við styrkingu á Krýsuvíkurvegi en framkvæmdir voru áætlaðar síðar á þessu ári. Næstu daga verður unnið við að styrkja og bæta um 1,3 km kafla á Krýsuvíkurvegi. Þetta er gert í ljósi gossins þannig að vegurinn verði betur í stakk búinn fyrir aukna umferð ef þess gerist þörf.
Á vef Vegagerðarinnar segir:
„Búast má við töluverðri aukningu umferðar á öllu svæðinu í kringum gosstöðvarnar sérstaklega ef heimilt verður að ganga að gosstöðvunum. Vakin er athygli á því að óheimilt er að leggja bifreiðum í vegkanti hvort heldur er á Reykjanesbraut eða á Suðurstrandarvegi en það skapar mikla hættu. Vegfarendur eru beðnir um að virða það.
Vigdísarvallavegur (Djúpavatnsleið) er lokaður vegna gossins að beiðni yfirvalda og verður hugsanlega svo fram yfir gos. Höskuldarvallarvegur er einnig lokaður.
Ætlunin var einnig að fara í framkvæmdir á veginum við Festarfjall vegna mögulega mikils umferðarálags vegna gossins en nú er til skoðunar að fresta þeim framkvæmdum.
Þá hefur verið bætt við víravegriðum á Krýsuvíkurvegi síðustu daga til að auka umferðaröryggið.“