Vefur Víkurfrétta 10 ára í dag
Fréttavefur Víkurfrétta er 10 ára í dag. Vefurinn opnaði formlega þann 15. júní 1995. Víkurfréttir á netinu voru fyrsti íslenski fréttamiðillinn sem bauð lesendum ókeypis aðgang að fréttaefni á netinu en á þessum tíma þurfti t.a.m. að greiða fyrir aðgang að vef Morgunblaðsins.
Fyrstu árin var efni Víkurfrétta sett inn á vefinn vikulega en um áramótin 1999/2000 var farið að flytja daglegar fréttir á vef blaðsins með því að uppfæra vefinn oft á dag. Í dag er www.vf.is langstærsti vefur Suðurnesja og fjórði stærsti fréttavefur landsins.
Víkurfréttir reka tvo aðra vefi til viðbótar við vf.is. Vefurinn vikurfrettir.is flytur fréttir úr Hafnarfirði, Garðabæ og af Álftanesi og vefurinn kylfingur.vf.is er sérvefur um golf, sem hefur fengið mjög góðar viðtökur en hann var opnaður formlega um síðustu mánaðamót.
Myndin: Það er ekki langt síðan þetta útlit var á vef Víkurfrétta.