VefTV: Tekist á um „andlit“ bæjarins
– Böðvar Jónsson og Friðjón Einarsson tókust á.
„Ég er þeirrar skoðunar að þessi stærri bæjarfélög eins og okkar þurfi að hafa mjög afgerandi pólitískan leiðtoga. Sveitarfélög sem eru með fagmenn á stærri sviðum eins og á félagsmálasviði, fjármálasviði, í skólamálum og fleirum þurfi að hafa pólitískan leiðtoga sem stýrir verkunum og fylgir ákvörðunum meirihlutans,“ segir Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta.
„Ég benti líka á það að nýr meirihluti hefur gefið það út að forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar verði andlit bæjarins út á við og það muni gera nýjum bæjarstjóra erfitt fyrir, verandi á milli þriggja elda, þriggja flokka í meirihluta. Hann muni eiga erfitt með að taka ákvarðanir sem oft þarf að gera með skömmum fyrirvara,“ sagði Böðvar jafnframt.
„Bæjarstjóri mun verða æðsti embættismaður bæjarins og mun þannig verða andlit bæjarins út á við. Á ákveðnum viðburðum mun forseti bæjarstjórnar verða andlit bæjarins, líkt og verið hefur í tíð fyrri meirihluta. Við ætlum ekki að breyta neinu í því,“ segir Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi í samtali við Sjónvarp Víkurfrétta.