VefTV: Árni skilur ekki upphlaupið
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, vísar frá öllum ásökunum um að ólöglega hafi verið staðið að verki þegar Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) seldi félaginu Háskólavöllum fasteignir fyrir um 14 milljarða króna í upphafi síðasta mánaðar.
Styr hefur staðið um söluna og hafa margir blandað sér í umræðuna, meðal annars Atli Gíslason, þingmaður VG í suðurkjördæmi, sem gagnrýndi söluna harðlega á Alþingi. Þá taldi Óskar Ásgeirsson, sérfræðingur í eignasölu Ríkiskaupa, að sú stofnun hafi átt að sjá um söluna í stað Kadeco.
Árni telur að upphaf þessa upphlaups sé að rekja til aðila sem hafa ekki fengið keyptar eignir á svæðinu. „Einhverjir höfðu hótað því að hefna sín og mér sýnist nú einhverjir hafa náð í gegn.“
Hann bætir við : „Það voru einfaldlega sett á lög sem miðuðu við það að þetta væri svo sérstakt verkefni að það þyrfti að huga vel að því að það væri ekki verið að keyra þessar eignir inn í samfélagið og keyra upp markaðinn á Suðurnesjum. Það þyrfti að þróa hugmyndir á bak við það sem við erum að gera þarna, eins og með háskólasamfélagið. Það er ekkert sjálfsagt að byggja upp svo öflugt háskólasamfélag sem þarna getur orðið. Þannig þótti það mjög eðlilegt að um leið og við erum að þróa hugmyndir, þá gæti þetta félag [Kadeco] selt þessar eignir.“
Nánar í VefTV Víkurfrétta
Loftmynd/Oddgeir Karlsson