Veðurofsi setti strik í jólareikninginn - forstjórinn keyrir út pantanir og raðar í hillur
Skortur á vörum í verslun og vandræði með afhendingu vara vegna óveðursins. Allar hendur á dekk og unnið í að fylla á og keyra út pantanir.
Vegna ofsaveðursins sem gekk yfir landið í vikunni hefur starfsfólk Samkaupa staðið í ströngu við að koma verslunum aftur í samt horf, en vegna veðurs var ekki hægt að flytja vörur í verslanir og illilega gekk að koma pöntunum til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu. Verslanir Nettó í Reykjanesbæ og Grindavík voru svo gott sem tómar og ekki hægt að bæta úr meðan veðrið gekk yfir, enda Reykjanesbraut lokuð í dágóðan tíma og vöruflutningar þ.a.l. ómögulegar.
Samkaup sendi út neyðarkall þvert á deildir fyrirtækisins í gærmorgun þegar veðrinu fór að slota og voru sem allir sem vettlingi gátu valdið kallaðir til í útkeyrslu, í áfyllingar og vörumóttöku. Þar á meðal forstjóri Samkaupa, Gunnar Egill Sigurðsson, sem undanfarna tvo daga hefur bankað upp á hjá viðskiptavinum með pantanir úr netverslun og raðað í hillur verslana til að bregðast hratt og örugglega við óvenjulegum aðstæðum, rétt eins og annað starfsfólk Samkaupa.
„Við höfum aldrei séð annað eins og þökkum starfsfólki fyrir snör viðbrögð þegar við gátum farið að bregðast við. Viðbrögðin við neyðarkallinu okkar voru algjörlega frábær og fólk veigrar sér ekki við að ganga í öll störf, hvort sem er starfsfólk í framkvæmdastjórn, mannauðsteyminu, fjármáladeild eða í verslunum. Við erum því að ná að koma verslunum okkar og þjónustu hratt í fyrra horf. Það er eðlilega mikið álag núna í aðdraganda jóla og því gífurlega dýrmætt að sjá samheldnina í hópnum okkar. Þá erum við sömuleiðis þakklát viðskiptavinum sem hafa sýnt mikla þolinmæði í þessum óvenjulegu aðstæðum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
Hann segist sjá nokkuð greinilegt mynstur í þeim útkeyrslum sem hann tók að sér, en mikið var um að eldra fólk kæmist hreinlega ekki í matvörubúð vegna óveðursins og síðar færðarinnar á stígum. „ Fólk bregst við svona aðstæðum með því að prófa nýjar leiðir og fjölmargir pöntuðu í gegnum netið og fengu sent heim. Mörg hver í fyrsta skiptið og ánægjan leyndi sér ekki þegar við mættum með jólainnkaupin upp að dyrum og það má sannarlega segja að mörg okkar hafi komist í alvöru jólaskap á þessum tímapunkti,“ segir Gunnar Egill.