Veðurofsa spáð á Suðurnesjum - vinsamlegast festið allt lauslegt
Svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurnesjum hefur haft samband við Víkurfréttir til að koma þeim tilmælum til fólks að ganga frá öllu lauslegu því spáð er mjög slæmu veðri á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir aftakaveðri í fyrramálið og líklegt að vindkviður nái allt að 50 metrum á sekúndu þegar veðrið verður hvað vest milli kl. 06-10 í fyrramálið.
Lægð með óveðri er nú í uppsiglingu við landið. Búist er við hvelli nú um 21 leytið til klukkan 2 í nótt og m.a. spáð 30-40 m/s hviðum undir Hafnarfjalli og á utanverðu Kjalarnesi. Í fyrramálið snýst í SV-storm og um leið kólnar. Slydda og krapi í byggð, en hríðarveður á fjallvegum, skyggni lítið og akstursskilyrði í raun afleit.
Ástæða er til að minna fólk á að tryggja lausamuni sem gætu fokið og valdið tjóni í rokinu.