Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Veðrið setur strik í reikninginn við björgun Guðrúnar Gísladóttur KE
Miðvikudagur 5. febrúar 2003 kl. 09:13

Veðrið setur strik í reikninginn við björgun Guðrúnar Gísladóttur KE

Aðgerðir til að koma fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE-15, sem sökk við strendur Norður-Noregs í sumar, upp af hafsbotni hafa tafist nokkuð, þar sem kafarar, sem munu sjá um alla vinnu neðansjávar, eru enn ekki komnir á björgunarstað. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.Upphaflega stóð til að Guðrún Gísladóttir yrði komin til hafnar í Lófóten fyrir jól.
Ásgeir Logi Ásgeirsson, sem er í forsvari fyrir aðgerðirnar, segir að kafararnir séu nú á leiðinni til Lófóten, en ákveðið hafi verið að þeir færu í annað verk í millitíðinni þar sem veðurútlit fyrir N-Noreg hafi verið slæmt. Lægðirnar, sem búið var að spá að færu yfir N-Noreg, fóru sunnar yfir en áætlað var, einmitt þar sem kafararnir voru að störfum. Þeir luku verkefninu þar, viðgerð á neðansjávarkapal, því ekki fyrr en í gær.
Ásgeir Logi segir að um þessar mundir sé veðrið í Lófóten ágætt. "Maður er svolítið svekktur að geta ekki notað þessa daga sem eru svona góðir, en vonar að nú verði betra að eiga við þetta þar sem sól er farin að hækka á lofti og daginn tekið að lengja. Við vonum að veðrið verði gott svo við getum drifið í þessu," segir hann.
Allt undirbúið
Ásgeir Logi á von á því að aðgerðirnar hefjist af fullum krafti í næstu viku og segir að hægt verði að ganga rösklega til verks eftir að kafararnir mæti á svæðið, þar sem Íslendingarnir sem vinni að björgunaraðgerðunum hafi undirbúið allt sem að þeim snýr síðustu vikur. Hann segir að kostnaður vegna björgunaraðgerðanna hafi ekki aukist mikið vegna tafanna, þar sem köfunin sjálf vegi þyngst í öllum kostnaði.

Morgunblaðið á Netinu greinir frá í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024