Vaxtaverkir og næg atvinna
– forstjóri Isavia hvetur fólk til að flytja til Suðurnesja. fullt af störfum í flugstöðinni.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir nýtt og glæsilegt verslunar- og veitingasvæði vera lykilþátt í framtíðaruppbyggingu Keflavíkurflugvallar. „Hér skapast mjög mikilvægar tekjur sem nýtast beint í stækkun og þróun flugvallarins og sú fagmennska sem hér er viðhöfð hjá öllum rekstraraðilum er meðal þess sem gerir það að verkum að við munum geta ráðist í mikilvægar fjárfestingar í takt við farþegaaukninguna, án þess að ríkið þurfi að hafa aðkomu að.“ Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Björn Óla
Hvaða framkvæmdapakka var að ljúka hérna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar?
Nú erum við búin að taka brottfarar- og verslunarsvæðið fyrir farþegana sem eru að fara hér í gegnum flugstöðina og það sem skiptir öllu máli núna er það að við sáum fram á það fyrir nokkrum árum síðan að þetta svæðið yrði of lítið. Við værum ekki með aðstöðu fyrir farþegana, bæði veitingaaðstöðu eða bara til að vera hér inni. Það var tekin ákvörðun þá um að endurskipuleggja svæðið, sem nú hefur tekist. Menn hafa fengið stærri verslunasvæði, stækka svæðið fyrir flugverndina þannig að við getum fengið fólk hraðar inn í stöðina í stað þess að láta það bíða í biðröðum. Núna getum við sagt að næstu árin, miðað við hraðann í aukningu farþega, getum við sinnt okkar farþegum betur.
Nú eru allnokkrir nýir aðilar hér í verslun og þjónustu. Er aukning á því sviði eða eru þetta bara nýir aðilar?
Það eru ekki svo margir nýir aðilar, einu nýju eru þeir sem halda Fashion Accesories. Nord er búið að vera lengi hér í flugstöðinni. Það sem er búið að vera ánægjulegt að sjá hversu vel aðilarnir sem voru hér eru samkeppnishæfir. Stór erlend fyrirtæki reyndu að komast að hér.
Það hafði verið einhver gagnrýni í gangi í sambandi við allt þetta dæmi, hverju svararðu því á þessri stundu?
Mér finnst sorglegt af mönnum að taka þessu svona illa. Allir vilja gjarnan komast hérna inn. Við gætum fyllt þetta svæði mörgum sinnum og það hefði verið gaman að vera með verslunarsvæði sem er miklu stærra. En ég held að ef við horfum á framtíðina og sjáum hversu mikla aukningu við erum að horfa á hérna á næstu árum. Með miklu stærri flugstöð. Þá er spurning um að vera enn fljótari til, komast hér inn og taka þátt í þessu í framtíðinni hér á svæðinu.
Nú er í raun ekki rétt að segja að ferðasumarið sé hafið hér á Íslandi. Þetta er orðið ferðaárið, það er áframhaldandi mikil aukning.
Aukningin hefur farið fram úr björtustu vonum. Í maí fengum við yfir 30% aukningu miðað við maí í fyrra og ég get sagt að febrúar, sem í gamla daga var lélegasti ferðamánuðurinn okkar, hann er jafn stór og júní var 2009. Og við erum að sjá aukningu alla mánuðina. Þegar Keflavíkurflugvöllur var stofnaður árið 2009 vorum við með 1,7 milljónir farþega. Núna erum við að nálgast 4,7 milljónir.
Hafa ekki verið ýmsir vaxtaverkir með þessu?
Rosalegir vaxtaverkir, en ég ætla samt að segja að fólkið hérna, bæði verktakar, okkar eigið fólk, þjónustuaðilar og verslanir hafa allir staðið saman til að tryggja það að geta haldið frábærri þjónustu, eins og við vorum með 2014, þegar við vorum besti flugvöllur Evrópu. Það er ekki mat einhverra aðila úti í bæ. Það er mat farþeganna sem fara um flugstöðina. Það sem var gaman þegar menn voru að vinna hérna var að það voru svo góðar niðurstöður úr þjónustukönnunum og það sagði okkur að menn stóðu sig vel í öllum látunum, hávaðanum og rykinu. Þá voru menn að vinna sína vinnu frábærlega. Maður getur bara verið stoltur að vera hluti af því.
Það hefur verið talað um að þetta sé afar stóð iðja, flugstöðin. Nú er svo komið að atvinnuleysið er orðið mjög lítið. Hvernig gengur að manna öll störf hérna?
Ég get nú bara sagt að við höfum smá áhyggjur af því. Á næsta ári erum við að tala um 700-800 þúsund farþega í viðbót og auðvitað þarf að sinna þeim. Við höfum séð að menn hafa nánast stolið góðu starfsfólki hver frá öðrum á svæðinu. Við ætlum að reyna að ná mönnum inn og ég held að það sé gott fyrir Suðurnesin að það vantar greinilega gott fólk. Það er kominn tími á að benda fólki á að það er pláss fyrir fólk að flytja hingað í gott húsnæði með góðri aðstöðu og vinnu sem hægt er að fá til framtíðar, ekki bara í einhvern stuttan tíma. Ég vona að sem flestir flytji hingað til Suðurnesja til að koma að vinna hjá okkur eða samstarfsaðilum okkar.
Og þið eruð hvergi hætt; það eru stórframkvæmdir framundan við frekari stækkun á flugstöðinni.
Það eru bara mjög stórar framkvæmdir, við búumst við að stækka eiginlega allar byggingarnar á næstu 2-3 árum. Strax í ár munum við byrja að undirbúa breytingar hér í norðurbyggingunni til vesturs og austurs. Við förum að stækka suðurbygginguna til að stækka svæðið sem menn fara í gegnum við vegabréfaskoðun hjá lögreglunni. Við verðum að gera það. Svo þurfum við líka að stækka þessa byggingu hérna. Þótt þetta sé glæsilegt og flott svæði verður þetta ekki nógu stórt eftir nokkur ár og við verðum bara að vera viðbúin því.
Geturðu sagt okkur eitthvað frá því í stuttu máli? Er þetta að gerast á næstu 2-3 árum?
Já við erum að fara núna að stækka masterplanið okkar, sem er í raun áætlun sem við höfum um nánari uppbyggingu flugstöðvar Keflavíkurflugvallar. Strax í næstu viku munum við hefja vinnu við deiliskipulag fyrir svæðið til að undirbúa það. Og við sjáum það að fyrir lok ársins þá förum við í hönnunarsamkeppni um viðbyggingarnar sem við förum pottþétt í að byggja árið 2016. Við munum ekki stoppa næstu árin. Það verður alltaf ein ný viðbygging á ári í nokkur ár.
Verður kannski ekkert stoppað á meðan farþegum fjölgar?
Sú aukning sem við sjáum er langt umfram það sem við sjáum á öðrum flugvöllum í Evrópu. Menn teljast góðir að fá 3-7%. Eins og við höfum verið að horfa á meðaltal frá 2009, aukningu um 16,5%. Það segir bara það að þessi aukning er nánast helmingur af því sem var 2009. Það var 4. stærsta auking frá byggingu flugstöðvarinnar.
Þessar miklu framkvæmdir hljóta nú að kosta sitt?
Jú þær eru mjög dýrar en þess vegna erum við á fullu núna að reyna að sjá hvernig við getum fengið peninga til að standa undir framkvæmdunum. Hluti þeirra eru hér á verslunarsvæðinu. Þeir sem hafa komið hér inn á svæðið gera það að verkum að við treystum þeim til að búa til peninga sem verða svo notaðir til að þróa flugvöllinn með allar þessar stóru framkvæmdir. Það er algjört grundvallaratriði og þess vegna gerðu þeir breytingarnar á sínum tíma og þetta var boðið út og það er strax farið að skila sér. Við erum að fá peninga sem eru strax farnir í að borga niður þessar framkvæmdir hér.
Stöðin er að njóta meiri velgengni aðilanna sem eru að selja þjónustu og vöru.
Allur peningurinn sem hefur verið myndaður hérna, þökk sé velvilja ríkisvaldsins og fjármálaráðuneytisins, þeir hafa allir farið í að byggja aftur upp flugvöllinn og flugstöðina. Ef við hefðum ekki fengið þá peninga, þá gætum við ekki byggt jafn hratt.